Erlent

Trump í mál við Clinton og flokksstjórn Demókrata

Smári Jökull Jónsson skrifar
Trump er á fullu í kosningaherferð og var í Suður-Karólínu á dögunum.
Trump er á fullu í kosningaherferð og var í Suður-Karólínu á dögunum. Vísir/Getty

Donald Trump hefur höfðað mál gegn Hillary Clinton, flokksstjórn Demókrataflokksins og tuttugu og sex öðrum einstaklingum vegna ásakana um tengingu hans við Rússland í kosningabaráttunni árið 2016 og fer fram á milljónir dollara í skaðabætur.

Í málsókninni er fjöldi manns nefndur á nafn sem Trump hefur í mörg ár ásakað um samsæri gegn sér. Meðal þeirra eru fyrrum forstjóri FBI James Comey, breski njósnarinn Christopher Steele og nokkrir starfsmenn kosningateymis Hillary Clinton.

Stuðningsmenn Trump segja þau öll hluta af djúpríkinu svokallaða sem hann sjálfur hefur oft nefnt, tengslaneti frjálslyndra embættismanna sem eiga að hafa staðið í vegi hans.

Málsóknin telur heilar 108 blaðsíður og þar sakar hann pólitíska andstæðinga sína um samsæri gegn sér, ólöglegar málsóknir, tölvuglæpi og þjófnað á leynilegum gögnum. Hann fer fram á rúma þrjá milljarða í skaðabætur.

Í málsókninni má finna ýmsar staðreyndavillur sem og ýktar ásaknir Trump sem hann hefur ítrekað haldið fram í fjölmiðlum. Í málsókninni eru Clinton og háttsettir Demókratar sakaðir um að hafa ráðið lögfræðinga og rannsóknaraðila til að falsa upplýsingar sem tengja áttu Trump við Rússland og síðan dreifa þeim upplýsingum til fjölmiðla.

Kosningateymi Clinton borgaði rannsóknarfólki fyrir að finna upplýsingar sem tengdu Trump við Rússa en flestar veigamestu ásakanirnar, í málsókninni sem Trump lagði fram í dag, hafa verið hraktar af hlutlausri rannsóknarnefnd þingsins sem og af dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Trump heldur því fram að þessir aðilar hafi fengið aðstoð frá fólki hliðhollu Clinton innan FBI sem hafi misnotað vald sitt í rannsóknum sínum gegn sér. 

Ýmsir sérfræðingar hafa tjáð sig um málsókn Trump og segja hana hluta af pólitískri skák.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×