Lífið

Páll Óskar tók lagið: „Ég er búinn að lifa alveg dá­sam­legu lífi“

Óttar Kolbeinsson Proppé og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa

Poppkóngurinn Páll Óskar fagnar fimmtugsafmæli sínu í kvöld með stórtónleikum í Háskólabíói í kvöld og á morgun. Hann kveðst ótrúlega þakklátur og segist vera búinn að lifa dásamlegu lífi.

„Ég er bullandi fimmtíu og tveggja ára. Það kom svolítið fyrir þegar við ætluðum að halda upp á þetta afmæli en heldurðu að það sé ekki bara lúxus að halda upp á fimmtíu afmæli sitt tveimur árum síðar, og svindla bara á tveimur árum. Enginn fattar neitt,“ segir Páll Óskar hress.

Þegar hann segir að „svolítið hafi komið fyrir“ á Páll Óskar við kórónuveirufaraldurinn en fresta þurfti tónleikunum vegna kórónuveirufaraldursins.

Við hverju mega tónleikagestir búast?

„Öllu lífi mínu! Þetta er bara saga lífs míns í tónum. Og það er svo magnað, mér líður alltaf eins og ég hafi aldrei gert neitt – alla vega ekki neitt af viti - en svo þegar ég fékk að kíkja á þessi lög svona með stækkunarglerinu þá komu í ljós ofsalega mörg gull. 

Ég er búinn að komast að því að ég er búinn að lifa alveg dásamlegu lífi og ég er svo þakklátur fyrir að fá að deila því með fólkinu hér í kvöld og á morgun. Þetta verður alveg geggjað,“ segir poppkóngurinn Páll Óskar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×