Níutíu og tvö prósent íbúa í Stykkishólmi samþykktu tillöguna og sjötíu og níu prósent í Helgafellssveit. Þar var kjörsókn 93 prósent en 55 prósent í Stykkishólmi. Skessuhorn hefur eftir Jakobi Björgvin Jakobssyni, bæjarstjóra í Stykkishólmi, að íbúar sveitarfélaganna hafi alltaf litið á sig sem eitt samfélag og að þau verði sterkari saman.
Einnig var kosið um sameiningu í Langanesbyggð og Svalbarðshreppi. Í Langanesbyggð sögðu 73 prósent já við sameiningu og í Svalbarðshreppi sögðu 67 prósent já. Jónas Egilsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, er ánægður með niðurstöðuna.
„Og það er eitt sem er svolítið mikilvægt er að þetta eru samtengd og náin sveitarfélög á þessu svæði. Eitt atvinnusvæði, skólasvæði, sameiginlegur leikskóli fyrir bæði sveitarfélögin og svo framvegis,“ segir Jónas.
Sameiningin muni skila sterkari tengslum milli íbúa.
„Þessi góði stuðningur sem sameiningin fékk hann er forystufólki sveitarfélagins og samfélaginu gefur því kraft inn í framtíðina hef ég trú á.“
Fáum við að sjá nýtt nafn?
„Góð spurning. Ég held að þetta sé ein af áskorunum sem við þurfum að finna lausn á. Það verður trúlega efnt til nafnasamkeppni eða hugmyndasamkeppni um nöfn,“ sagði Jónas Egilsson sveitarstjóri Langanesbyggðar. Sveitarstjórnir komi saman nú á þriðjudag.