Leiðtogar NATO-ríkjanna funduðu í Brussel í síðustu viku, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands. Í frétt Bloomberg af viðræðum sem þar áttu sér stað á milli leiðtoga kemur fram að tvær fylkingar séu að myndast innan bandalagsins um það hvernig best sé að takast á við Pútín til að draga úr átökum í Úkraínu.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, telur til að mynda best að halda viðræðum áfram í von um að hægt sé að semja um vopnahlé. Hægt sé að fá Rússa til að hverfa úr Úkraínu með diplómatískum leiðum. Kollegar Macron í Berlín eru á sömu bylgjulengd ef marka má frétt Bloomberg.
„Okkar helsta markmið er að ná að semja um vopnahlé svo að drápin geti hætt,“ sagði Steffen Heibestreit, talsmaður Olaf Scholz Þýskalandskanslara í dag.
Leiðtogar Póllands, Bretlands og ríkja Austur-Evrópu, að Ungverjalandi undanskildu, virðast vera á öndverðum meiði samkvæmt frétt Bloomberg, þar sem meðal annars er vísað í skjöl af fundum leiðtoganna. Telja leiðtogar þessara ríkja að sú stefna sem Þjóðverjar og Frakkar vilja setja á oddinn sé ekki til gagns. Efast þeir um að Pútín taki þátt í viðræðunum af heilindum og að hægt verði að semja um ásættanleg frið.
Er Andrzej Duda, forseti Póllands, meðal annars hafa spurt kollega sína að því hvort að þeir teldu svo vera að þeir skilmálar sem Pútin hefur boðað í vopnahlésviðræðum væru ásættanlegir.
Vopnahlésviðræður á milli Rússlands og Úkraínu fara fram í Tyrklandi á morgun.