Í janúar tilkynnti tónlistarkonan að hún ætti von á barni með kærasta sínum A$AP Rocky. Síðan þá hefur hún verið óhrædd við að skarta óléttukúlunni hvert sem hún fer og hafa fatasamsetningar hennar verið hver annarri glæsilegri.
„Þegar konur verða óléttar lætur samfélagið þeim líða eins og þær þurfi að fela sig og sinn kynþokka því þær séu ekki kynþokkafullar lengur. Við megum ekki trúa þeirri þvælu,“ sagði tónlistarkonan í viðtali við tímaritið ELLE.
Sjá einnig: Rihanna og A$AP Rocky eiga von á barni
Hún segist vera óhræddari við að prófa nýja hluti í fatavali nú en áður en hún varð ólétt. Því efnisminni, þynnri, götóttari (e. cut-outs) sem flíkurnar séu, því betra.
Oft áskorun að klæða sig á þriðja hluta meðgöngunnar
„Mér líður mjög fallegri en sú tilfinning kemur að innan. Þú veist að allar þessar breytingar sem líkaminn þinn er að ganga í gegnum eru vegna þess að þú ert að búa til manneskju,“ en hún tekur fram að hún sjái sérstaklega breytingar á andlitslagi sínu og nefi.
„Það er þessi óléttuljómi en svo koma líka dagar, sérstaklega á þriðja hluta meðgöngunnar, þar sem þú vaknar og hugsar „oh þarf ég að klæða mig“. Förðunarvörur hjálpa mér vissulega að líða eins og eðlilegri manneskju,“ segir tónlistarkonan sem leggur sérstaka áherslu á rakakrem og skyggingarvörur nú á meðgöngunni.
Hér að neðan má finna myndir af einstökum stíl Rihönnu á meðgöngunni.





