Ákvörðun þingkonunnar Idit Silman þýðir að stjórn nýtur nú stuðnings sextíu þingmanna, jafnmargra þingmanna og eru í stjórnarandstöðu á þingi.
Ríkisstjórn Bennetts forsætisráðherra tók við völdum fyrir tæpu ári eftir fjórðu þingkosningarnar í landinu á tveimur árum.
Stjórnin getur áfram starfað, en ákvörðun Silman þýðir að erfiðara gæti reynst að koma lagafrumvörpum í gegnum þingið. Silman hefur gegnt stöðu þingflokksformanns í Yamina, flokki Bennetts.
Guardian segir að ákvörðun Silmans hafi komið mjög á óvart og kunni að tengjast innanflokksdeilum um hvort að leyfa eigi matvælum sem innihalda ger á sjúkrahúsum landsins á meðan á páskahátíð gyðinga stendur.
Hefðir gyðinga gera ráð fyrir að slík matvæli séu bönnuð á þessum tíma. Silman vill meina að hugmyndirnar ógni sjálfsmynd gyðinga og muni hún því vinna að því að mynda nýja hægristjórn í landinu.