Umfjöllun og viðtöl: Njarð­vík – Fjölnir 80-66| Njarðvík jafnaði einvígið

Andri Már Eggertsson skrifar
Úr fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninni.
Úr fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninni. Vísir/Vilhelm

Njarðvík jafnaði einvígið gegn Fjölni 1-1 eftir sigur í Ljónagryfjunni. Njarðvík byrjaði afar vel og var með forystuna nánast út allan leikinn sem skilaði 14 stiga sigri 80-66. 

Njarðvík hefur gengið vel með Fjölni í Ljónagryfjunni og mættu heimakonur með sjálfstraustið í botni þrátt fyrir að hafa tapað fyrsta leiknum í einvíginu. Á fyrstu tveimur mínútunum komst Njarðvík tíu stigum yfir 12-2.

Í fyrsta leikhluta dró Aliyah Daija Mazyck vagninn fyrir gestina og gerði hún 11 af 18 stigum Fjölnis sem var sjö stigum undir eftir fyrsta fjórðung.

Njarðvík byrjaði annan leikhluta ekkert ósvipað og þann fyrsta, með því að setja niður tvo þrista á upphafmínútunum. Staðan var 38-22 eftir sextán mínútna leik en þá komst Fjölnir betur inn í leikinn. Gestirnir enduðu fyrri hálfleik á að minnka forskot Njarðvíkur niður í níu stig og var staðan 42-33 í hálfleik.

Aliyah A'taeya Collier, leikmaður Njarðvíkur, byrjaði seinni hálfleik á að setja niður sniðskot í traffík sem skilaði ferð á vítalínuna sem hún nýtti. Eftir það vöknuðu gestirnir frá Grafarvogi. Sanja Orozovic byrjaði á að gera fimm stig í röð og þá var ekki aftur snúið. Aliyah A'taeya Collier fór að punda á heimakonur og komst Fjölnir yfir í fyrsta skipti í leiknum eftir 14-2 áhlaup.

Þegar haldið var í síðasta fjórðung var Njarðvík tveimur stigum yfir. Lára Ösp Ásgeirsdóttir setti niður afar mikilvægan þrist rétt áður en þriðja leikhluta lauk.

Aliyah Collier kveikti í stuðningsmönnum Njarðvíkur í síðasta fjórðungi með því að gera fyrstu fimm stigin. Það var mikill meðbyr með heimakonum í fjórða leikhluta sem Fjölnir átti í miklum vandræðum með.

Það voru ekki margir leikmenn Fjölnis að skila stigum á töfluna. Eftir 39 mínútna leik hafði Sanja Orozovic og Aliyah Daija Mazyck gert 56 af 61 stigum Fjölnis. Njarðvík vann á endanum fjórtán stiga sigur 80-66.

Af hverju vann Njarðvík?

Njarðvík leysti svæðisvörn Fjölnis töluvert betur heldur en í síðasta leik. Fjölnir átti hins vegar í miklum vandræðum með varnarleik Njarðvíkur.

Njarðvík sýndi mikinn karakter í fjórða leikhluta. Njarðvík var aðeins tveimur stigum yfir fyrir síðasta fjórðung en Njarðvík kálaði deildarmeisturunum frá Grafarvogi í fjórða leikhluta og þar við sat.

Hverjar stóðu upp úr?

Aliyah A'taeya Collier átti afar öflugan leik en hún gerði 29 stig, tók 18 fráköst og endaði með 38 framlagspunkta.

Diane Diéné Oumou var einnig með tvöfalda tvennu. Hún gerði 20 stig og tók 10 fráköst.

Aliyah Daija Mazyck var með Fjölni á bakinu. Hún skoraði 36 stig og tók 10 fráköst. 

Hvað gekk illa?

Fjölnir fékk aðeins framlag frá tveimur leikmönnum. Aliyah Daija Mazyck og Sanja Orozovic gerðu 56 af 61 stigi Fjölnis á 39 mínútum. 

Fjölnir gaf aðeins 5 stoðsendingar í leiknum sem var einni stoðsendingu minna en Vilborg Jónsdóttir, leikmaður Njarðvíkur. 

Það er með ólíkindum að Njarðvík hafi unnið leikinn svona sannfærandi hafandi tapað 28 boltum. 

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur á sunnudaginn í Dalhúsum klukkan 18:15.

Halldór Karl: Vorum búnar á því í fjórða leikhluta

Halldór Karl var svekktur með tap gegn NjarðvíkVísir/Bára Dröfn

Halldór Karl Þórsson, þjálfari Fjölnis, var afar svekktur eftir tap gegn Njarðvík.

„Öll okkar orka fór í að elta Njarðvík sem spilaði miklu betur en við og áttu sigurinn skilið. Njarðvík hitti úr ótrúlegum skotum,“ sagði Halldór Karl eftir leik og hélt áfram að hrósa Njarðvík.

„Í fyrri hálfleik vorum við ekki á réttu tempói og Njarðvík nýtti sér það. Skotnýting Njarðvíkur var mjög góð og það er erfitt að vinna leiki þegar andstæðingurinn hittir betur en þú.“ 

Fjölnir komst yfir í þriðja leikhluta og var Halldór ánægður með vörnina hjá sínu liði.

„Í þriðja leikhluta fórum við að spila vörn og skora hinu megin. Mjög einfalt.“

Njarðvík valtaði yfir Fjölni í fjórða leikhluta og fannst Halldóri vanta orku í Fjölni.

„Það vantaði orku í fjórða leikhluta. Við vorum alveg búnar á því sérstaklega Aliyah Daija Mazyck hún var alveg búin á því og ég þarf að skoða hvort hún þurfi að hvíla meira,“ sagði Halldór að lokum.

 

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira