Þótt þeim þyki reyndar sjálfum annað.
Nokkuð mikið hefur verið ritað og rætt um óhæfa leiðtoga. Í bókinni Why do so many incompetent men become leaders er því haldið fram að óhæfir leiðtogar séu þó svo margir að það þurfi vart annað en að fylgjast með fréttum til að sjá til þeirra.
Einkenni leiðtoga sem eru óhæfir
Einkenni leiðtoga sem eru óhæfir beinast helst að persónulegum eiginleikum þeirra. Hér eru nokkur atriði.
Þeir hafa neikvæð áhrif á starfsfólk og teymi
Þeirra eigið egó er oftar en ekki í fyrsta sæti
Þeir vilja ekki að aðrir skyggi á þá
Þeir vilja ráða
Þeir pirrast þegar þeir fá spurningar sem þeim líkar ekki
Þeir koma nánast of sjálfsöruggir fram.
Einkenni lélegra stjórnenda
Að vera lélegur stjórnandi er ekki það sama og að vera óhæfur leiðtogi. Lélegur stjórnandi endurspeglast meira í þeim veikleikum sem finna má í stjórnun þeirra. Hér eru nokkur atriði sem einkenna lélega stjórnendur:
Þeir eru ekki mjög góðir í samskiptum
Þeir forðast, fresta eða koma sér undan erfiðum málum
Þeir eru ekki með skýra framtíðarsýn og metnað
Það er ekki hægt að stóla á þá sem yfirmenn
Þeir eiga erfitt með að aðlagast breytingum
Þeir eiga erfitt með að forgangsraða.
Á netinu og hjá ýmsum ráðgjöfum og fagaðilum er hægt að taka styrkleikapróf til að meta leiðtogahæfni. Og í dag þykir það líka sjálfsagðara en áður að stjórnendur sæki ráðgjöf og þjálfun til að efla sig í starfi. Til dæmis hjá stjórnendaráðgjöfum, markþjálfum og fleirum.
Hvernig metur þú sjálfan þig?
Í umfjöllun Harvard Business Review um óhæfa leiðtoga og einkenni þeirra, er spurningalisti sem fólk er líka hvatt til að svara til að átta sig aðeins á því hvar það mögulega stendur hvað leiðtogahæfni varðar.
Spurningarnar eru byggðar á niðurstöðum ýmissa rannsókna en þær eru þessar:
Telur þú þig búa yfir góðum leiðtogahæfileikum?
Telur þú að margt annað fólk væri til í að hafa svipaða getu og þú?
Gerir þú sjaldan mistök í starfi?
Ertu með mikla og jákvæða útgeislun?
Hefur þú þá trú á sjálfum þér að þú getir látið alla þína drauma rætast?
Áttu auðvelt með að miðla málum í vinnunni?
Hefur þú sterka sannfæringu fyrir því að þér muni vegna vel í starfi?
Telur þú að það sé erfitt fyrir annað fólk að plata þig?
Finnst þér sjálfsagt að sýna auðmýkt þegar það á við?