Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, greindi frá því í samtali við fréttastofu í gær að félagsmenn Eflingar hefðu safnað hátt í 500 undirskriftum þar sem kallað var eftir félagsfundi og að stjórnin yrði að verða við því samkvæmt lögum félagsins.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir aftur á móti í stöðuuppfærslu á Facebook í kvöld að Agnieszka hafi reynt að fá starfsmann félagsins, sem að sögn Sólveigar hefur engin félagsleg völd til að boða félagsfund, til að senda tölvupóst á alla félagsmenn.
„Sem betur fer er þekking starfsmannsins á lögunum betri en varaformanns svo að henni varð ekki kápan úr klæðinu. Með þessu gerði varaformaður tilraun til að þvinga fram ólöglegt fundarboð en samkvæmt lögum félagsins er það stjórnar að boða félagsfund,“ segir Sólveig Anna.
Segist ekki taka þátt í að brjóta lög félagsins
Agnieszka tók skýrt fram í samtali við fréttastofu í gær að það hefðu verið félagsmenn sem söfnuðu undirskriftunum og að stjórninni bæri lagaleg skylda til að verða við kröfunni ef fleiri en 300 félagsmenn krefjast félagsfundar. Í dag sagðist hún efast það stórlega að stjórnin yrði við kröfunni.
Sólveig Anna gagnrýnir framferði hennar harðlega. „Að varaformaður hafi svo yfirborðskennda þekkingu á lögum félagsins að hún skilji ekki og/eða þekki ekki hvar ábyrgð á boðun funda liggur er til skammar,“ segir Sólveig.
„Í dag hefur hún svo stigið fram og látið sem að ég ætli með “einræðistilburðum” að koma í veg fyrir að félagsfundur verði haldinn. Það er með öllu ósatt. Ég, ólíkt henni, tek stöðu mína og ábyrgð sem formaður alvarlega. Ég mun ekki taka þátt í því að brjóta lög félagsins,“ segir hún enn fremur.
Krafa félagsmanna er að fundurinn fari fram á föstudag en Sólveig segir að stjórnin muni koma saman og ákveða dagsetningu fundarins, sem svo verður auglýstur með réttum hætti samkvæmt lögum.
„Staðreyndin er sú að varaformaður reyndi að þvinga fram fund ólöglega en ég er að fara eftir lögum félagsins,“ segir Sólveig.