Fótbolti

Carragher skálaði í beinni og bauð LeBron á úrslitaleikinn í París

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
carrabron

Jamie Carragher var í miklu stuði eftir að Liverpool tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í gær. Hann skálaði í beinni útsendingu og bauð körfuboltasnillingnum LeBron James á úrslitaleikinn.

Carragher var reyndar ekki upplitsdjarfur í hálfleik í leiknum gegn Villarreal, enda Liverpool 2-0 undir. En brúnin lyftist í seinni hálfleik sem Rauði herinn vann, 0-3. Liverpool vann einvígið, 5-2 samanlagt og komst þar með í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í þriðja sinn á síðustu fimm árum.

Carragher var sérfræðingur CBS um leikinn ásamt Thierry Henry og Micah Richards. Þeir höfðu gaman að angist Carraghers í fyrri hálfleik en hann brosti breitt á endanum og fagnaði með því opna einn bjór í myndveri.

Ekki nóg með það heldur bauð Carragher einum frægasta stuðningsmanni Liverpool, sjálfum LeBron James, á úrslitaleikinn í París 28. maí.

„LeBron, ef þú vilt koma til París geturðu verið með okkur í CBS-liðinu sem minn gestur. Á hliðarlínunni, ég vil hafa þig við hliðina á okkur í París. Gefðu okkur stuðninginn sem við þurfum til að vinna sjöunda Evrópumeistaratitilinn. Komdu stóri maður,“ sagði Carragher.

LeBron, sem á hlut í Liverpool, var að sjálfsögðu ánægður með sína menn eftir sigurinn á Villarreal og deildi gleði sinni með heimsbyggðinni á Twitter.

Í kvöld kemur í ljós hvort Real Madrid eða Manchester City verður andstæðingur Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í lok þessa mánaðar. City leiðir 4-3 eftir fyrri leikinn.

Leikur Real Madrid og Manchester City hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×