Fótbolti

Fótbolti er óútreiknanlegur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep Guardiola átti fá svör enda fótbolti óútreiknanlegur.
Pep Guardiola átti fá svör enda fótbolti óútreiknanlegur. EPA-EFE/SERGIO PEREZ

„Við vorum nálægt, við vorum mjög nálægt. En á endanum tókst ekki að komast áfram,“ sagði Pep Guardiola eftir súrt tap sinna manna í Madríd í kvöld. Tapið þýðir að Manchester City mistókst að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

„Þetta er einfalt, í fyrri hálfleik vorum við ekki með nægilega góða stjórn á leiknum. Við vorum ekki nægilega góðir en það stafaði lítil ógn af mótherjanum. Eftir að við skoruðum vorum við betri. Við spiluðum á okkar hraða og spiluðum okkar leik, leikmönnunum leið vel.“

„Það var ekki þannig síðustu 10 mínútur leiksins. Þeir sóttu og sóttu og okkur leið ekki vel. Þeir settu fullt af leikmönnum inn í teiginn - Militao, Rodrygo, Vinicius, Benzema – þeir sendu boltann fyrir markið og þeir skoruðu tvö mörk.“

„Við spiluðum ekki okkar besta leik en það er eðlilegt. Í undanúrslitaleik finna leikmenn fyrir pressunni sem fylgir því að vilja komast í úrslit. Fótbolti er óútreiknanlegur, fótbolti er leikur eins og þessi hér í kvöld. Við verðum að sætta okkur við það.“

„Nú þurfum við að meðtaka það sem átti sér stað og koma til baka með fólkinu okkar heima því það eru fjórir leikir eftir af tímabilinu,“ sagði Pep að endingu en Man City er í harðri baráttu við Liverpool um enska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×