Íslenski boltinn

Rúnar: Eiginlega ósáttur að þeir hafi fengið rautt spjald

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Kristinsson sagði að sínir menn hefðu ekki náð að opna vörn KA nægilega oft.
Rúnar Kristinsson sagði að sínir menn hefðu ekki náð að opna vörn KA nægilega oft. vísir/Hulda Margrét

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, viðurkenndi að það hafi ekki hjálpað sínu liði neitt þegar KA-maðurinn Oleksii Bykov fékk rauða spjaldið í leiknum á Meistaravöllum í dag. KR-ingar sóttu stíft allan leikinn en KA-menn gáfu nánast engin færi á sér.

„Það vantaði betri sendingar og kannski fleiri opnanir. En eins og ég sagði fyrir leikinn er KA með frábært skipulag og erfitt að brjóta þá á bak aftur. Og þessi fáu færi sem við fengum nýttum við ekki,“ sagði Rúnar við Vísi eftir leik.

„Við herjuðum á þá allan seinni hálfleikinn, reyndum að vera þolinmóðir með boltann og finna leiðir. En þegar við fundum þær vantaði síðustu sendinguna eða afgreiðsluna. Þeir vörðust ofboðslega vel og eiga heiður skilinn fyrir það.“

Rúnar segir að KA-menn séu sennilega erfiðasta lið deildarinnar að brjóta á bak aftur.

„Þeir eru ofboðslega erfiðir. Ég var eiginlega ósáttur að þeir hafi fengið rautt spjald. Það hefði verið betra að vera ellefu gegn ellefu. Þá hefðum við kannski fengið fleiri möguleika á að opna þá. Þeir fóru lítið fram í seinni hálfleik en við þurftum að passa okkur því þeir eru með hraða og góðar skyndisóknir. Við náðum ekki nægilega góðum opnunum og fyrirgjöfum og þeir voru alltaf á undan í boltann inni í teignum og grimmari en við,“ sagði Rúnar.

Hann var sammála þeirri fullyrðingu blaðamanns að KR-ingar hafi verið hættulegri meðan það var enn jafnt í liðum.

„Við vorum það sennilega í fyrri hálfleik. Í seinni vorum við hættulegir, að sækja og upp við vítateig þeirra allan tímann og reyndum að finna leiðir í gegn sem við fundum ekki. Því fór sem fór. Þeir vörðust vel og lokuðu á okkur þótt þeir væru einum færri,“ sagði Rúnar.

Eftir sigur á Fram í 1. umferðinni hefur KR nú aðeins fengið eitt stig í síðustu þremur leikjum sínum.

„Þetta er ekki óskastaða mín eða okkar í KR. Við hefðum viljað hafa fleiri stig en við sættum okkur við þetta. Við getum ekki annað. Þetta er búið, við verðum að halda áfram og gera betur næst. Og kannski skora eitt og eitt mark,“ sagði Rúnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×