Skoðun

Íþróttakennari án aðstöðu

Ómar Freyr Rafnsson skrifar

Ég tel mig nokkuð viss um að ég tali fyrir hönd flestra íþróttakennara þegar ég segi að eitt af því skemmtilegasta í lífi íþróttakennarans er tilhugsunin að fá að hitta nemendur skólans yfir kennsluvikuna. Það er svo skemmtilegt að hitta nemendur, kenna þeim og kynnast.

Einn stærsti gallinn, eða mesta áskorunin, er örugglega eins og margir íþróttakennarar hér í Hafnarfirði þekkja; bág aðstaða til íþróttakennslu eins og staðan er í dag við Öldutúnsskóla, Hvaleyrarskóla og Áslandsskóla.

Samkvæmt skipulagi var og er gert ráð fyrir íþróttahúsi við Öldutúnsskóla. Því miður hefur ekki tekist að koma því til framkvæmda og féll það niður eins og svo margt annað eftir að íslenska þjóðin gekk í gegnum hrunið sem hafði áhrif á allt samfélagið.

Margt gott hefur áunnist fyrir íþróttahreyfinguna hér í Hafnarfirði. Knatthús í fullri stærð hefur risið í Kaplakrika fyrir bæði yngri og eldri iðkendur, körfuknattleikshús er komið upp hjá Haukum og nýlega var samþykkt að knatthús muni rísa á Ásvöllum svo fátt eitt sé nefnt.

Skarðshlíðarskóli reis og með honum glæsileg aðstaða til íþróttakennslu fyrir nemendur, sama má segja um Lækjarskóla þar sem bæði er hægt að senda nemendur í sund og íþróttir á sama stað.

Enn er þó staðan þannig að Öldutúnsskóli situr eftir og hefur ekki ennþá fengið íþróttahús fyrir sína nemendur og eru þeir þess í stað sendir með rútu í nálæg íþróttahús hér í bænum.

Nú ætti að vera kominn tími á að við förum í þær framkvæmdir að byggja fyrir okkar nemendur íþróttahús. Ekki bara við Öldutúnsskóla, heldur líka Hvaleyraskóla og Áslandsskóla. Þessi hús er vel hægt að nýta t.d. fyrir eldra fólk í hverfum til frekari heilsueflingar eftir að skilgreindu skólastarfi lýkur, hægt að nýta fyrir íþróttahópa og fleira.

Það var því ánægjulegt að sjá að Framsókn í Hafnarfirði er með það á sinni málefnaskrá að hefja undirbúning að byggingu íþróttahúsa við þessa skóla. Það er kominn tími til. Það er ljóst að framtíðin ræðst á miðjunni hér í Hafnarfirði.

Ég mun setja x við B.

Höfundur er íþróttakennari í Öldutúnsskóla.




Skoðun

Sjá meira


×