Jón sagðist í Reykjavík síðdegis í dag vona að þessi staða hafi ekki komið upp vegna kjarabaráttu flugmanna. Hann telji svo ekki vera samkvæmt hans upplýsingum.
„Þetta er einstakt tilfelli. Menn vissu að það væru ákveðnir veikleikar á þessum tíma í mönnun sem helgast þá af meðal annars af þjálfunarmálum flugmanna. Menn hafa ekki komist erlendis í herma út af COVID ástandi og það spilar þar inn í. Það er ekkert annað hægt en að taka undir það að þetta er óásættanleg staða og mjög alvarleg.“
Engu að síður segir hann að það sé bagalegt að ekki hafi náðst að ljúka kjarasamningum við flugmenn hjá Landhelgisgæslunni, þeir hafi verið lausir of lengi.
Ræddi við forstjóra Gæslunnar í dag
Landhelgisgæslan hefur í sínum rekstri sex þyrluáhafnir en Jón segir að bent hafi verið á að það vanti þá sjöundu til að geta haldið úti fullmönnuðu viðbragði.
„Við höfum í fjármálaáætlun hér í dómsmálaráðuneytinu gert grein fyrir því gagnvart fjárveitingavaldinu á Alþingi að rekstrarstaða stofnunarinnar, til að geta haldið uppi fullu viðbragði, að úr henni þurfi að bæta og við gerum okkur væntingar um að fá áheyrn í þeim málum.“
Jón kveðst hafa rætt við forstjóra Landhelgisgæslunnar í dag. Þar séu menn áhyggjufullir yfir stöðunni og að verið sé að skoða málið.