Íslenski boltinn

Leiknismenn að skora á rúmlega fimm klukkutíma fresti í síðustu fjórtán leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leiknir er með jafnmörg rauð spjöld og mörk skoruð í sumar og þeir skoruðu ekki einu sinni markið sjálfir.
Leiknir er með jafnmörg rauð spjöld og mörk skoruð í sumar og þeir skoruðu ekki einu sinni markið sjálfir. Vísir/Hulda Margrét

Mörkin láta bíða eftir sér hjá Leiknismönnum í Bestu deild karla í fótbolta í sumar og svo hefur í raun verið allt síðan að liðið missti framherjann Sævar Atli Magnússon í atvinnumennsku. Nú eru fimm umferðir búnar af þessu tímabili og Leiknismaður hefur enn ekki skorað fyrir Leikni í ár.

Eina mark Leiknis í fyrstu fimm umferðunum var sjálfsmark Eyjamannsins Eiðs Arons Sigurbjörnssonar í 1-1 jafntefli út í Eyjum í þriðju umferðinni. Leiknir skoraði ekki í 0-1 tapi á móti KA, 0-3 tapi á móti Stjörnunni, 0-0 jafntefli á móti Víkingi eða 0-3 tapi á móti Keflavík í gærkvöldi.

Leiknisliðið náði heldur aðeins að skora þrjú mörk í síðustu níu leikjum sínum í deildinni í fyrra.

Það þýðir fjögur mörk í síðustu fjórtán leikjum og það kemur því ekki á óvart að liðið hafi aðeins náð í sex stig út úr þeim.

Leiknismenn hafa aðeins skorað fjórum sinnum á síðustu 1260 mínútum sínum í efstu deild eða mark á 315 mínútna fresti. Það hafa því liðið fimm klukkutímar og fimmtán mínútur á milli marka Breiðholtsliðsins í leikjum liðsins í efstu deild frá því í lok júlí í fyrra.

Enginn sem hefur skorað eitt af þessum fjórum mörkum er leikmaður Leiknis í dag. Einn þeirra er Eyjamaður og tvö þeirra skoraði Daníel Finns Matthíasson sem nú orðinn leikmaður Stjörnunnar. Fjórða markið skoraði síðan Andrés Escobar.

Það eru alls liðnar 1324 mínútur síðan núverandi leikmaður Leiknis skoraði fyrir liðið í efstu deild en það mark skoraði Hjalti Sigurðsson í sigri á Stjörnunni 19. júlí í fyrra.

  • Fæst mörk í Bestu deildinni 2022:
  • 1 mark - Leiknir R.
  • 6 mörk - ÍBV
  • 6 mörk - Fram
  • 7 mörk - KR
  • 7 mörk - ÍA
  • 7 mörk - FH
  • 8 mörk - KA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×