Fótbolti

City fær sekt fyrir „óviðeigandi framkomu“ gegn Atlético Madrid

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það var allt á suðupunkti þegar Manchester City heimsótti Atlético Madrid á Wanda Metropolitano á Spáni.
Það var allt á suðupunkti þegar Manchester City heimsótti Atlético Madrid á Wanda Metropolitano á Spáni. Burak Akbulut/Anadolu Agency via Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City hafa verið sektaðir um fjórtán þúsund evrur fyrir „óviðeigandi framkomu liðsins“ í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu gegn Atlético Madrid á dögunum.

Það samsvarar rétt tæplega tveimur milljónum íslenskra króna, en Englandsmeistararnir fóru áfram eftir markalaust jafntefli í síðari leiknum. City vann fyrri leikinn 1-0.

Það var þó allt á suðupunkti í síðari leiknum þegar Felipe, leikmaður Atlético Madrid, fékk að líta rauða spjaldið eftir brot á Phil Foden.

Í látunum mátti meðal annars sjá Stefan Savic, fyrrverandi leikmann Manchester City, rífa í hárið á Jack Grealish áður en leikmennirnir tveir létu vel valin orð falla um hvorn annan í leikslok.

Þáverandi Spánarmeistarar Atlético Madrid höfðu fengið skipun um að loka hluta vallarins fyrir heimaleik þeirra gegn Manchester City. Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hafði skipað Madrídarliðinu að loka 5.000 sætum í refsingarskyni fyrir slæma hegðun stuðningsmanna liðsins í fyrri leik liðanna sem fram fór í Manchester.

Sú ákvörðun UEFA var hins vegar dregin til baka af Íþróttadómstól Evrópu. Eins og áður segir hefur UEFA sektað Manchester City um tæpar tvær milljónir íslenskra króna, en Atlético Madrid hefur í það minnsta enn sem komið er sloppið við refsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×