Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 55,9 prósenta fylgi í kosningunum um helgina. Flokkurinn hélt fjórum fulltrúum sínum og þannig meirihluta en sjö bæjarfulltrúar eru í sveitarfélaginu. Framfarasinnar fengu 30,5 prósenta fylgi og tvo fulltrúa á meðan Íbúaflokkurinn fékk einn fulltrúa með 13,7 prósenta fylgi.
Meirihlutinn hélt því og vel það.
„Þegar rykið sest og farið er að rýna í tölur kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Það er áhugavert að ekki eingöngu er D-listinn í Ölfusi með mesta fylgi allra D-lista á landinu (amk. í stærri sveitarfélögum) heldur hefur hann aldrei í sögu þessa sveitarfélags fengið jafn mikið fylgi,“ segir Elliði í færslu á Facebook.
Meðal fylgi Sjálfstæðisflokksins á öldinni sé um 40 prósent. Nú hafi fylgið verið tæplega helmingi meira eða 56 prósent.
„Umboðið er því skýrt, íbúar vilja bjartsýni, gleði og skýra framtíðarsýn,“ segir Elliði.

Ef litið er yfir stærstu sveitarfélög landsins er afar fátítt að nokkur flokkur fái yfir fimmtíu prósent fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur um árabil átt bæjarstjórastólinn vísan í Garðabæ og Seltjarnarnesi. Engin breyting varð á því um helgina þótt fylgið fari minnkandi í báðum sveitarfélögum. Hreinn meirihluti hélt.
Þannig fékk flokkurinn 50,1 prósent á Nesinu sem skilaði fjórum bæjarfulltrúum af þeim sjö sem í boði eru. Í Garðabænum fékk flokkurinn 49,1 prósent sem tryggði flokknum sjö bæjarfulltrúa af ellefu. Flokkurinn fagnaði svo góðum árangri í Árborg með 46,4 prósenta fylgi sem skilabði hreinum meirihluta, sex fulltrúum af ellefu.
Framsóknarflokkurinn gældi svo við fimmtíu prósentin í Borgarbyggð hvar flokkurinn náði hreinum meirihluta fulltrúa, fimm af níu, með 49,7 prósenta fylgi.