Fótbolti

Roma tryggði Evrópu­deildar­sætið með fyrsta sigrinum síðan 10. apríl

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Roma fagna öðru af marki Tammy Abraham í kvöld.
Leikmenn Roma fagna öðru af marki Tammy Abraham í kvöld. EPA-EFE/ALESSANDRO DI MARCO

Lokaumferð Serie A, ítölsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, hófst í kvöld með einum leik. Lærisveinar José Mourinho gulltryggðu Evrópudeildarsæti sitt á næstu leiktíð með 3-0 útisigri á Torino. Tvö markanna komu úr vítaspyrnu.

Það tók gestina frá Rómarborg rúmlega hálftíma að brjóta ísinn. Það var að sjálfsögðu Tammy Abraham sem kom liðinu á bragðið með góðri afgreiðslu eftir sendingu Lorenzo Pellegrini. Tæpum tíu mínútum síðar fengu gestirnir vítaspyrnu sem Tammy sendi rakleiðis í netið.

Staðan orðin 2-0 og var hún þannig allt þangað á 78. mínútu þegar Rómverjar fengu aðra vítaspyrnu. Ótrúlegt en satt fór Tammy ekki á punktinn heldur Pellegrini, honum brást hins vegar ekki bogalistin og staðan orðin 3-0.

Reyndust það lokatölur leiksins og Roma endar Serie A með 63 stig í 5. sæti. Lazio þarf aðeins stig í lokaleik sínum til að fara upp fyrir nágranna sína. Torino endar með 50 stig í 10. sæti.

Af hverju leikurinn fór fram á föstudegi er óvíst en mögulega er Serie A að gefa Roma auka frídag til að undirbúa sig fyrir úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu sem fram fer á miðvikudeginum í næstu viku.


Serie A er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 kr. á mánuði. Upplýsingar um beinar útsendingar frá ítalska boltanum má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×