Íslenski boltinn

Blikar nú í hópi liða þar sem öll hin hafa orðið Ís­lands­meistarar með stæl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson fagnar einu af sjö mörkum sínum í fyrstu sjö umferðum Bestu deildarinnar.
Ísak Snær Þorvaldsson fagnar einu af sjö mörkum sínum í fyrstu sjö umferðum Bestu deildarinnar. Vísir/Hulda Margrét

Blikar eiga Íslandsmeistaratitillinn vísann í haust ef marka má sögu Íslandsmóts karla í fótbolta.

Breiðablik vann 4-3 sigur á Fram í Kópavoginum gærkvöldi og er nú komið með 21 stig og 23 mörk skoruð í fyrstu sjö umferðunum.

Sjö sigrar í sjö fyrstu leikjunum. Fimm önnur lið hafa náð þessu í sögu alls Íslandsmóts karla og niðurstaðan á hausti hefur alltaf verið sú sama.

FH 2005, ÍA 1995, Valur 1978, Keflavík 1973 og KR 1959 unnu nefnilega líka öll sjö fyrstu leiki sína líka og þau unnu ekki aðeins Íslandsmótið heldur burstuðu það eins og sjá má hér fyrir neðan.

KR 1959 endaði með fullt hús stiga úr tíu leikjum og kláraði mótið með níu stigum meira en ÍA sem varð í öðru sæti.

Keflavík 1973 tapaði ekki leik (12 sigrar og 2 jafntefli) og fékk fimm stigum meira en Valur sem varð í öðru sæti.

Valsmenn 1978 töpuðu ekki leik, náðu í 35 stig af 36 mögulegum og endaði með sex stigum meira en ÍA sem varð í öðru sæti.

Þessi þrjú tímabil var tveggja stiga reglan en ekki þrjú stig gefin fyrir sigur. Munurinn var því meiri en þetta kannski lítur út fyrir.

ÍA 1995 vann tólf fyrstu leiki sína á mótinu og endaði með 49 stig af 54 mögulegum og með fjórtán stigum meira en KR sem varð í öðru sæti.

FH 2005 vann fimmtán fyrstu leiki sína og var búið að vinna titilinn þegar þrjár umferðir voru eftir og liðið enn með fullt hús. FH tapaði reyndar næstu tveimur leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×