Umfjöllun og viðtöl: Keflavík 1-2 Þróttur | Þróttur fer á topp Bestu-deildarinnar

Atli Arason skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Þróttur sótti stigin þrjú í Keflavík í Bestu-deild kvenna í kvöld með dramatískum 1-2 sigri þar sem sigurmarkið kom á 90. mínútu leiksins. Með sigrinum fer Þróttur á topp deildarinnar.

Leikur liðanna í kvöld var fremur rólegur í upphafi og bæði lið voru afar varkár í nálgun sinni á leiknum. Fyrsta marktilraunin, sem mætti líka túlka sem misheppnaða fyrirgjöf, kom ekki fyrr en eftir 10 mínútna leik en fram af því var lítið að frétta. Á 21. mínútu kom þó fyrsta mark leiksins og þar var að verki Murphy Agnew sem hefur verið heit fyrir framan markið í upphafi tímabils.

Keflvíkingar færðu Murphy sitt fjórða mark á tímabilinu á silfurfati. Misskilningur í öftustu línu Keflavíkur varð til þess að Elín Helena, leikmaður Keflavíkur, gaf boltann inn á miðsvæðið en beint á Álfhildi Rósu í liði Þróttar. Álfhildur kom boltanum strax á Andreu Rut sem býr yfir frábærri spyrnutækni, Andrea setti boltann í fyrstu snertingu yfir vörn Keflavíkur og beint í hlaupaleið Murphy Agnew sem kláraði færið sitt afar snyrtilega framhjá Samantha Murphy í marki Keflavíkur. Þróttarar voru mjög snöggar að bregðast við en það tók þær ekki nema átta sekúndur að skora frá því að þær fengu boltann frá Keflavík.

Lítið annað frásagnafært skeði í fyrri hálfleik annað en stórkostleg markvarsla frá Samantha Murphy rétt fyrir hálfleik. Agnew sleppur þá aftur ein í gegn en hún náði ekki að koma boltanum framhjá Murphy sem gerði sig stóra og varði skot Agnew á undraverðan hátt með löppinni.

Þegar tæpt korter er liðið af síðari hálfleik jafnaði Dröfn Einarsdóttir leikinn fyrir Keflavík. Dröfn átti þá góða kollspyrnu inn í vítateig Þróttar eftir flotta fyrirgjöf Anítu Lind Daníelsdóttur af vinstri kant. Leikurinn lifnaði við eftir jöfnunarmarkið, bæði lið sóttu til skiptis og fengu tilraunir til að koma inn þessu mikilvæga þriðja marki.

Það virtist þó allt stefna í jafntefli áður en Gema Simon, vinstri bakvörður Þróttar, fékk nægan tíma með boltann vinstra megin á vellinum og spyrnti knettinum inn í vítateig Keflavíkur þar sem Murphy markvörður ætlaði að mæta boltanum en Freyja Karín, leikmaður Þróttar, var á undan Murphy í boltann og náði að stýra knettinum í netið með höfðinu á 90. mínútu leiksins.

Keflvíkingar höfðu ekki tíma til að svara fyrir þetta mark Freyju og lokatölur urðu því 1-2 fyrir Þrótt sem tyllti sér á topp Bestu-deildarinnar með 13 stig.

Af hverju vann Þróttur?

Sigurinn hefði getað dottið öðru hvoru megin í kvöld en heilt yfir þá fékk Þróttur fleiri tækifæri í kvöld og var meira með boltann. Samantha Murphy, markvörður Keflavíkur, sá til þess að sigur Þróttar var ekki stærri en raun bar vitni með nokkrum frábærum markvörslum.

Hverjar stóðu upp úr?

Murphy Agnew var síógnandi í liði Þróttar og erfið viðureignar. Andrea Rut stýrði spili Þróttar vel en sóknarleikur Þróttar var mun beittari eftir að Danielle Marcano kom inn af varamannabekknum eftir jöfnunarmark Keflavíkur þegar rúmur klukkutími var liðinn af leiknum.

Dröfn Einarsdóttir var besti leikmaður Keflavíkur en hún spilaði bæði í fremstu viglínu og sem hægri bakvörður í leiknum og gat leyst bæði hlutverk með prýði. Ásamt því skoraði Dröfn mark Keflavíkur sem virtst ætla að skila þeim einu stigi.

Hvað gerist næst?

Næsti deildarleikur Keflavíkur er gegn Þór/KA á Akureyri næsta miðvikudag. Sama dag spilar Þróttur gegn Stjörnunni á Þróttaravelli. Áður en það kemur að því eiga bæði lið bikarleiki um helgina, Keflavík fær ÍBV í heimsókn á sunnudaginn en Þróttur tekur á móti Víkingum á föstudag.

„Við fengum á okkur mjög ódýr mörk“

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur.vísir/vilhelm

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur var að vonum sár og svekktur eftir leikslok þegar Vísir leitaðist eftir viðbrögðum hans.

„þetta eru gríðarleg vonbrigði. Stelpurnar vörðust vel og lögðu sig allar fram. Þrátt fyrir að þær [Þróttarar] voru mikið meira með boltann á köflum þá voru þær að skapa sér mjög lítið. Við fengum á okkur mjög ódýr mörk og það eru gríðarleg vonbrigði. Sérstaklega að fá mark á sig svona alveg í lokin,“ sagði Gunnar.

Fyrsta mark Þróttar var afar klaufalegt af hálfu Keflvíkinga.

„Við erum að bera boltann upp og missum hann, þá er bara allt galopið fyrir aftan okkur og þær fengu að koma óáreittar í gegn og eftirleikurinn hjá þeim var auðveldur, allavega í þetta sinn því það er ekki auðvelt að koma boltanum framhjá Sam í markinu,“ svaraði Gunnar, aðspurður út í fyrsta mark Þróttar.

Samantha Murphy átti nokkrar flottar markvörslur sem munu þó falla í skugga sigurmarksins sem Þróttur skoraði á lokamínútu leiksins.

„Hún [Murphy] er frábær í markinu og því er svolítið leiðinlegt í lok leiks þegar hún misreiknar úthlaupið aðeins. Hún getur þó gert mistök eins og aðrir leikmenn og hún veit það best sjálf. Hún er búinn að vera frábær í markinu hjá okkur og því er súrt að svona skildi fara,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, að endingu.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira