Í tilboðsbók B, þar sem lágmarksfjárhæð tilboða var 20 milljónir króna og umfram eftirspurnin reyndist vera fimmföld, var endanlegt útboðsgengi 10,03 krónur á hlut. Miðað við það gengi er allt hlutafé Ölgerðarinnar, sem er stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins, metið á meira en 28 milljarða króna.
Í tilboðsbók A, sem var fyrir almenna fjárfesta, var þreföld umfram eftirspurn og endanlegt útboðsgengi var 8,9 krónur á hlut. Samtals bárust um 6.600 áskriftir í útboðinu.
Ráðgert er að viðskipti með hlutabréf Ölgerðarinnar í Kauphöllinni muni hefjast fimmtudaginn 9. júní en ráðgjafi félagsins við skráninguna og útboðið er fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka.
Núverandi hluthafar, að undanskildum lykilstarfsmönnum, selja hlutfallslega jafn mikið af bréfum í félaginu í útboðinu sem stóð yfir dagana 23. til 27. maí.
Lífeyrissjóðir eiga nú um 37 prósenta hlut, í gegnum framtakssjóðina Horn III og Akur fjárfestingar, einkafjárfestar um 25 prósent en tryggingafélög, bankar og verðbréfasjóðir um 16 prósent hlut. Þá eiga þeir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, og Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, saman 16 prósenta hlut í gegnum OA eignarhaldsfélag.
Markaðshlutdeild félagsins er um 52 prósent á gosdrykkjamarkaði og um 66 prósent með kolsýrt vatn.
Ölgerðin á mörg af elstu og þekktustu vörumerkjum landsins á sínu sviði, til dæmis Egils Appelsín, Kristal, Egils Gull og Egils Malt, en tæplega helmingur af starfsemi félagsins er framleiðsla á eigin vörumerkjum. Auk þess er Ölgerðin með leyfi til þess að framleiða og selja vörur undir þekktum vörumerkjum frá fyrirtækjum Tuborg, Carlsberg Group og Pepsico.
Heildartekjur Ölgerðarinnar á síðasta fjárhagsári námu tæplega 32 milljörðum króna og EBITDA hagnaður félagsins var nærri 3,3 milljarðar króna.