Þegar útboðið hófst var stefnt að því að skerða ekki áskriftir undir einni milljón króna sem komu í tilboðsbók A, þar sem fjárhæð tilboða var lægri en 20 milljónir, en rúmlega fjórföld umframeftirspurn reyndist vera í útboðinu. Samtals bárust 6.600 áskriftir fyrir meira en 32 milljarða króna.
Seldur var 29,5 prósenta hlutur í félaginu fyrir samtals 7,9 milljarða króna.
Í tilboðsbók A, sem var fyrir almenna fjárfesta, var þreföld umfram eftirspurn og endanlegt útboðsgengi var 8,9 krónur á hlut. Í tilboðsbók B, þar sem lágmarks fjárhæð tilboða var 20 milljónir króna og umfram eftirspurnin reyndist vera fimmföld, var endanlegt útboðsgengi 10,03 krónur á hlut.
Miðað við það gengi er allt hlutafé Ölgerðarinnar, sem er stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins, metið á meira en 28 milljarða króna.
Ráðgert er að viðskipti með hlutabréf Ölgerðarinnar í Kauphöllinni muni hefjast fimmtudaginn 9. júní en ráðgjafi félagsins við skráninguna og útboðið er fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka.