Erlent

Handtaka höfuðpaur í einu stærsta skattsvikamáli Danmerkur

Kjartan Kjartansson skrifar
Sanjay Shah heldur fram sakleysi sínu. Hann hefur verið búsettur í Dúbaí undanfarin ár.
Sanjay Shah heldur fram sakleysi sínu. Hann hefur verið búsettur í Dúbaí undanfarin ár. AP/Christopher Pike

Breskur auðkýfingur sem er talinn um að vera höfuðpaurinn í einu stærstu skattsvikamáli í sögu Danmerkur var handtekinn í Dúbaí í dag. Hann og aðrir eru sakaðir um að hafa svikið hátt í þrettán milljarða danskra króna út úr ríkissjóði.

Saksóknarar í Danmörku halda því fram að Sanjay Shah hafi verið heilinn á bak við stórfelld skattsvik alþjóðlegs hóps bankamanna, lögfræðinga og fleiri sem hafi sótt um endurgreiðslur á fjármagnstekjuskatti sem þeir greiddu aldrei vegna hlutabréfa sem þeir áttu aldrei.

Í Danmörku hafi þeir náð að svíkja um 12,7 milljarða danskra króna út úr ríkissjóði, jafnvirði tæpra 237 milljarða íslenskra króna. Til að setja þá tölu í samhengi væri hægt að kaupa tæplega 196 milljónir glasa af Carlsberg-bjór á öldurhúsi í Kaupmannahöfn fyrir þá upphæð.

Shah, sem heldur fram sakleysi sínu, er sjálfur sakaður um að hafa svikið um níu milljarða danskra króna út úr danska ríkinu. Danska dómsmálaráðuneytið tilkynnti að hann hefði verið handtekinn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem hann hefur verið búsettur í dag.

Lögreglan í Dúbaí segist hafa fengið í hendur alþjóðlega handtökuskipun og að hún hafi handtekið Shah í nánu samstarfi við dönsku lögregluna, að því er segir í frétt danskra ríkisútvarpsins DR.

Danska dómsmálaráðuneytið gerði framsalssamning við furstadæmin í mars og gæti Shah því verið framseldur. Það kemur nú til kasta þarlendra dómstóla hvort að af því verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×