Erlent

Til­kynnti sjálfur að hann ætlaði að myrða hæsta­réttar­dómara

Árni Sæberg skrifar
Lögreglumenn hafa vaktað heimili Brett Kavanaugh síðan í maí þegar umdeildum drögum að dómi hæstaréttar Bandaríkjanna um þungunarrof var lekið.
Lögreglumenn hafa vaktað heimili Brett Kavanaugh síðan í maí þegar umdeildum drögum að dómi hæstaréttar Bandaríkjanna um þungunarrof var lekið. Kevin Dietsch/Getty Images

Karlmaður á þrítugsaldri sætir ákæru í Marylandríki í Bandaríkjunum fyrir að hafa reynt að myrða hæstaréttardómarann Brett Kavanaugh í gærkvöldi. Hann hringdi sjálfur í neyðarlínuna og tilkynnti að hann hafi ætlað sér að myrða Kavanaugh og svipta sjálfan sig síðan lífi.

Nicholas John Roske sætir nú gæsluvarðhaldi eftir að hafa verið handtekinn í Washington D.C. laust eftir klukkan eitt í nótt að staðartíma. Hann var handtekinn fyrir utan heimili hins umdeilda hæstaréttardómara Brett Kavanaugh vopnaður skammbyssu, hníf, benslum, piparúða og límbandi. Hann sagði lögreglumönnum sem handtóku hann að munina hafi hann ætlað að nota til brjótast inn til Kavanaugh og myrða hann, að því er segir í frétt AP um málið.

Afstaða Kavanaugh til þungunarrofs og skotvopnaeignar hafi hvatt hann áfram

Roske sagði ástæðu ætlaðs tilræðisins vera þá að hann væri í uppnámi eftir að drög að dómi hæstaréttar Bandaríkjanna um að ríkjum yrði í sjálfsvald sett hvort þungunarrof yrði áfram löglegt var lekið. Þá sagði hann að hann teldi að Kavanaugh stæði fyrir rýmkaðri skotvopnalöggjöf í landinu, eitthvað sem gremdist honum í ljósi skotárásarinnar í Uvalde í Texas á dögunum.

Öryggisverðir sáu til mannsins en aðhöfðust ekkert

Alríkislögreglumenn hafa sinnt öryggisgæslu allan sólarhringinn á heimilum allra hæstaréttardómara í Bandaríkjunum síðan hinum umdeildu drögum var lekið í síðasta mánuði, enda hafa þau valdið mikilli reiði í bandarísku samfélagi undanfarið.

Tveir þessarra lögreglumanna sáu til Roskes þegar hann steig út úr leigubíl fyrir utan heimili Kavanaugh en virðast ekkert grunsamlegt hafa séð. Það var ekki fyrr en Roske hringdi sjálfur á neyðarlínuna og tilkynnti um áform sín að lögreglumenn voru sendir á vettvang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×