Tæplega sjö þúsund hluthafar bættust í hluthafahóp Ölgerðarinnar eftir hlutafjárútboð félagsins sem lauk 27. maí síðastliðinn. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri félagsins, hringdi félagið inn á markað í morgun.
Haft var eftir Magnúsi Harðarsyni, forstjóra Nasdaq Iceland, að Ölgerðin hefði sterkar rætur í íslensku samfélagi sem leiðandi fyrirtæki á drykkjar- og matvælamarkaði. „Skráningin felur í sér ný tækifæri með auknum sýnileika og aðgangi að nýjum fjárfestum,“ sagði hann.
Ölgerðin birti í morgun lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins. Hann sýnir að tveir sjóðir í stýringu Stefnis keyptu stóran hluta af útboðinu en þeir fara samanlagt með yfir 6 prósenta hlut.
Horn III, framtakssjóður í stýringu Landsbréfa, er áfram stærsti hluthafinn eins viðbúið var en hlutur sjóðsins lækkar úr rúmum 25 prósentum niður í 17,6 prósent.
Þá eru Eignarhaldsfélagið Sindrandi, sem er í eigu Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, Akur fjárfestingar, sem er í rekstri Íslandssjóða, með samanlagt um 43 prósenta hlut og OA eignarhaldsfélag, sem er í eigu þeirra Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra Ölgerðarinnar, og Októs Einarssonar, áfram á meðal fjögurra stærstu hluthafanna.
Einu lífeyrissjóðirnir sem koma nýir inn á listann, báðir með minni eins prósents hlut, eru Birta, Festa.
Í verðmati greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital á rekstri Ölgerðarinnar, sem Innherji greindi frá, var komist að þeirri niðurstöðu að verðmatsgengi félagsins væri 11,3 krónur á hlut. Það er um 27 prósentum hærri verðmiði á fyrirtækið en í útboðinu þar sem almennum fjárfestum bauðst að kaupa hvern hlut á 8,9 krónur.
Samkvæmt spá Jakobsson Capital er gert ráð fyrir að hagnaður Ölgerðarinnar fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) á þessu fjárhagsári, sem nær frá mars 2022 til febrúar árið 2023, muni nema 3,4 milljörðum króna á raungrunni og aukast um rúmlega 120 milljónir frá fyrra ári.