Innlent

Sam­þykktu að sam­einað sveitar­fé­lag fái nafnið Húna­byggð

Árni Sæberg skrifar
Blönduós er nú hluti hinnar nýju Húnabyggðar.
Blönduós er nú hluti hinnar nýju Húnabyggðar. Vísir/Vilhelm

Ný bæjarstjórn sameinaðs sveitarfélags Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps samþykkti á fyrsta fundi sínum í dag að sveitarfélagið fengi nafnið Húnabyggð.

Samhliða sveitarstjórnarkosningum þann 14. maí síðastliðinn fór fram skoðanakönnun um nýtt nafn á sameinað sveitarfélag. Kosið var á milli nafnanna Blöndubyggð, Húnabyggð og Húnavatnsbyggð.

Húnabyggð fór með sigur af hólmi með 443 atkvæði af 669 greiddum atkvæðum, eða um 66 prósent atkvæða. Blöndubyggð hlaut 144 atkvæði um 21,5 prósent, Húnavatnsbyggð 53 atkvæði um 8 prósent, auðir og ógildir kjörseðlar voru 29 eða 4 prósent.

Ný sveitarstjórn samþykkti tillögu nýs forseta stjórnarinnar, Guðmundar Hauks Jakobssonar, sem byggð var á niðurstöðum skoðanakönnunarinnar samhljóða. Guðmundur var jafnframt kjörinn forseti bæjarstjórnar á fundinum með átta atkvæðum gegn einu auðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×