Erlent

Bresk stjórn­völd eyddu háum fjár­hæðum í gallaðan hlífðar­búnað

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Bresk stjórnvöld ætluðu að brenna hlífðarbúnað að andvirði fjögurra milljarða punda.
Bresk stjórnvöld ætluðu að brenna hlífðarbúnað að andvirði fjögurra milljarða punda. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Bresk stjórnvöld ætluðu að brenna hlífðarbúnað að andvirði fjögurra milljarða punda sem var ýmist gallaður eða stóðst ekki kröfur stjórnvalda. Þetta segir eftirlitsnefnd breska þingsins um ríkisútgjöld sem kannar nú hvernig stendur á því að ríkið hafi eytt eins miklu og raun ber vitni í ónothæfan búnað.

Úttekt nefndarinnar leiddi í ljós að heilbrigðisráðuneytið tapaði níu milljörðum punda af þeim tólf sem var eytt í hlífðarbúnað í tengslum við faraldur kórónuveiru vegna mikilla verðhækkana og gallaðs varnings. Stjórnarandstaðan gagnrýnir eyðsluna verulega og segir ríkið hafa borgað allt of mikið fyrir hlífðarbúnað vegna fljótfærni og skipulagsleysis sem hafi endað í gífurlegu magni af ónothæfum varningi. Þetta kemur fram í frétt AP-fréttastofunnar um málið.

Eftirlitsnefndin sagði að breska ríkið ætlaði að losa sig við fimmtán þúsund vörubretti af hlífðarbúnaði á mánuði en ætlunin var bæði að endurvinna búnaðinn og brenna til orkuframleiðslu. Breska heilbrigðisráðuneytið segir þó að það ætli sér ekki að brenna búnað virði fjögurra milljarða punda og segir aðeins búnað að andvirði 670 milljóna vera algjörlega ónothæfan. Erfitt er að meta hver umhverfisáhrif förgunarinnar verða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×