Erlent

Dóttir Musk vill rjúfa öll tengsl við hann

Kjartan Kjartansson skrifar
Dóttir Elons Musk vill veifa honum bless fyrir fullt og allt.
Dóttir Elons Musk vill veifa honum bless fyrir fullt og allt. Vísir/EPA

Átján ára gömul transdóttir auðkýfingsins Elons Musk hefur óskað eftir að láta breyta nafni sínu, ekki aðeins til að endurspegla kynvitund sína heldur einnig til að slíta öll tengsl við föður sinn.

Musk átti Xavier Alexander Musk með Justine Wilson, fyrrverandi eiginkonu sinni. Þau skildu árið 2008. Nú hefur barn þeirra farið fram á við yfirvöld í Kaliforníu að vera viðurkennt sem kona og óskað eftir nafnabreytingu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Ekki kemur fram í opinberum skjölum hvert nýja nafnið er. Í umsókninni segir þó að hún vilji ekki lengur „búa með eða vera skyld líffræðilegum föður mínum á nokkurn hátt.“

Musk lýsti yfir stuðningi sínum við Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum um mánuði eftir að dóttir hans lagði umsóknina fram. Fulltrúar flokksins hafa lagt fram alls kyns tillögur til að takmarka réttindi transfólks víðsvegar um landið að undanförnu.

Sjálfur sagðist Musk styðja transfólk í tísti árið 2020. Fornöfn transfólks væru hins vegar „fagurfræðileg martröð“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×