Guðrún segist ekki hafa ákveðið fyrir fram að vilja taka við embætti sóttvarnarlæknis „það var ekki stefna mín frá byrjun þar að taka við af Þórólfi og ég var ekkert að hugsa um það enda var hann alveg fílefldur og hefur staðið sig auðvitað gríðarlega vel en þegar hann tilkynnti að hann ætlaði að hætta núna þá hugsaði ég bara málið vel og vandlega og ákvað síðan að slá til.“
Guðrún og Þórólfur bæði með bakgrunn í barnalækningum
Guðrún og Þórólfur eiga það sameiginlegt að stíga úr barnalækningum yfir í störf hjá sóttvarnarlækni. Hún vonast eftir því að það verði aðeins rólegra að gera hjá henni en Þórólfi en segir „maður má alveg búast við einhverjum uppákomum og við verðum að vera tilbúin í það.“
Aðspurð hver helstu verkefni sóttvarnarlæknis séu segir Guðrún sóttvarnarlækni hafa yfirumsjón með sóttvarnasviði. Mest áberandi sé vöktun og skimun fyrir smitsjúkdómum ásamt annarri heilsuvá eins og ógn við heilsu fólks vegna geislavirkni og eiturefna. Embættið sinni áhættumati fyrir ýmsum sjúkdómum og áætlanagerð, hvernig skuli bregðast við ef eitthvað kemur upp á. Einnig segir Guðrún samskipti við alþjóðastofnanir hafa aukist.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Guðrúnu í heild sinni í spilaranum hér að neðan: