Erlent

Skóla­byggingin í Uvald­e verður rifin

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Alls létust nítján börn og tveir kennarar í árásinni í Robb-grunnskólanum í Uvalde í Texas sem var gerð 24. maí síðastliðinn.
Alls létust nítján börn og tveir kennarar í árásinni í Robb-grunnskólanum í Uvalde í Texas sem var gerð 24. maí síðastliðinn. EPA

Bæjarstjórinn í Uvalde, bænum þar sem byssumaður myrti nítján börn og tvo kennara á dögunum, segir að skólinn þar sem ódæðið var framið verði rifinn.

Bæjarstjórinn Don McLaughlin greindi frá þessu á bæjarstjórnarfundi í gær. McLaughlin segir að þetta hafi komið fram í samtali hans við yfirmann skólamála á svæðinu og að menn séu sammála um að ófært sé að láta börnin í hverfinu og kennarana mæta í sömu byggingu og hryllingurinn átti sér stað í.

Óljóst er þó hvenær byggingin verður rifin en sami háttur var hafður á eftir fjöldamorðin í Sandy Hook skólanum í Connecticut þar sem 26 voru myrt árið 2012.

Gríðarleg reiði ríkir í Bandaríkjunum yfir framferði lögreglunnar í málinu en þungvopnaðir lögreglumenn biðu í sjötíu mínútur fyrir utan skólastofuna áður en þeir létu loks til skarar skríða. Á meðan myrti árásarmaðurinn börnin í stofunni og tvo kennara þeirra.


Tengdar fréttir

Hefðu átt að stoppa byssumanninn eftir þrjár mínútur

Yfirmaður almannavarna í Texas segir að lögreglumenn sem brugðust við skotárásinni í Robb-grunnskólanum í Uvalde í síðasta mánuði hefðu átt að geta stöðvað byssumanninn þremur mínútum eftir að hann réðst inn í skólann. Viðbrögð lögreglu hafi verið „ömurlegt klúður“.

Kennari í Uvalde segir lögreglumenn „raggeitur“

Lögreglumenn sem biðu í klukkustund áður en þeir létu loks til skarar skríða á meðan byssumaður myrti nítján börn og tvo kennara í bænum Uvalde í Texas eru „raggeitur“, að sögn kennara sem særðist í árásinni. Hann segist aldrei geta fyrirgefið lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×