Körfubolti

Tryggvi Snær troðið oftast allra í sögu Zaragoza

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tryggvi Snær treður boltanum gegn verðandi Spánarmeisturum Real Madríd á nýafstaðinni leiktíð.
Tryggvi Snær treður boltanum gegn verðandi Spánarmeisturum Real Madríd á nýafstaðinni leiktíð. Juan Carlos García/Getty Images

Körfuknattleiksmaðurinn Tryggvi Snær Hlinason hefur troðið oftast allra í sögu spænska úrvalsdeildarliðsins Zaragoza. Greindi félagið frá þessu á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Hinn 24 ára gamli Tryggvi Snær leikur í stöðu miðherja og er engin smásmíð enda 2.16 metrar á hæð. Ásamt því að rífa reglulega niður fráköst þá er ljóst að Tryggvi Snær nýtir hæð sína oftar en ekki til að gnæfa yfir mótherjann og troða boltanum í körfuna þegar tækifæri gefst. 

Zaragoza staðfesti fyrr í dag að Tryggvi Snær væri nú sá leikmaður sem hefði troðið oftast allra í sögu félagsins. Alls hefur Tryggvi Snær troðið boltanum 122 sinnum í treyju félagsins. Hefur hann þar af leiðandi skorað 244 stig með troðslum ef stærðfræði blaðamanns svíkur ekki.

Tryggvi Snær hefur verið á mála hjá Zaragoza síðan árið 2019. Liðið ætlaði sér stóra hluti á nýafstaðinni leiktíð þar sem Real Madríd stóð uppi sem sigurvegari en á endanum var Zaragoza í bullandi fallbaráttu.  Á endanum rétt slapp liðið við fall og átti Tryggvi Snær stóran þátt í að liðið hélt sæti sínu.

Hann hefur verið búsettur frá Spáni frá 2017 og er samningsbundinn Zaragoza út næsta tímabil. Í viðtali við Vísi síðasta haust sagðist Tryggvi Snær ánægður á Spáni en draumurinn um að spila í NBA-deildinni í Bandaríkjunum lifði enn góðu lífi. 

Sem stendur verður að duga að troða boltanum á Spáni en hver veit nema Tryggvi Snær fái tækifæri til að gera slíkt hið sama í NBA-deildinni þegar fram líða stundir.


Spænski körfuboltinn, ACB, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. ACB er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×