Erlent

Tali­banar óska eftir að­stoð vegna jarð­skjálftans mann­skæða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Óttast er að yfir eitt þúsund hafi látist í skjálftanum.
Óttast er að yfir eitt þúsund hafi látist í skjálftanum. Vísir/AP

Talibanar, sem fara með völd í Afganistan, hafa óskað eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins, vegna jarðskjálftans sem reið þar yfir í morgun.

Skjálftinn var af stærðinni 6,1 og upptök hans voru við bæinn Khost við landamærin að Pakistan í suðausturhluta Afganistans.

Talið er að yfir eitt þúsund manns hafi látist og minnst 1.500 hafi slasast.

Sameinuðu þjóðirnar hafa reynt að bregðast við með því að senda neyðarbirgðir en gríðarleg úrkoma hefur tafið björgunarstörf.

Embed: Powerful earthquake kills 1,000 in Afghanistan
https://www.youtube.com/watch?v=SvD9DGiDP5U

Í frétt BBC kemur fram að það geti reynst mikil áskorun fyrir Talibana að bregðast við jarðskjálftanum. Töluverðar efnahagsþvinganir á Afganistan hafa verið í gildi frá því að Talibanar náðu aftur völdum í Afganistan síðastliðið sumar.

„Því miður er ríkisstjórnin undir efnahagsþvingunum og er því fjárhagslega ófær um að aðstoða þá sem þurfa þess mest að halda,“ er haft eftir Abdul Qahar Balkhi, háttsettum embættismanni í ríkisstjórn Talibana.

Segir hann að tilboð um aðstoð hafi komið víðs vegar frá og fyrir það séu Talibanar þakklátir.

Óttast er að tala látinna muni fara hækkandi því ekki sé vitað hversu margir kunni að fara fastir í rústum bygginga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×