Að minnsta kosti þúsund manns fórust í jarðskjálfta upp á 6,1 sem átti upptök sín nærri bænum Khost í þurru fjalllendi við landamærin að Pakistan. Um 1.500 manns til viðbótar slösuðust. Ekki er vitað hversu margir kunna að leynast í rústum húsa á hamfarasvæðinu en úrhellisrigning, vanefni yfirvalda og illfært landslagið hefur torveldað björgunarstarf.
Eftirlifendur og björgunarfólk segir breska ríkisútvarpinu BBC að heilu þorpin nærri upptökum jarðskjálftans séu rústir einar. Óttast er að tala látinna eigi aðeins eftir að hækka á næstu dögum.
Sameinuðu þjóðirnar reyna nú að koma neyðarskýlum og matvælaaðstoð til nauðstaddra á afskekktum svæðum í Paktika-héraði sem varð einna verst úti í skjálftanum. Kona á súkrahúsi í höfuðstað héraðsins sagði fréttamönnum að hún hefði misst nítján ættingja sína þegar hús þeirra hrundi.
Talsmaður heilbrigðisráðuneytis Afganistan segir Reuters-fréttastofunni að um þúsund manns hafi verið bjargað af hamfarasvæðinu í morgun.
Stjórn talibana hefur kallað eftir alþjóðlegri neyðaraðstoð. Fjarskiptainnviðir hafi orðið fyrir miklum skemmdum og heilbrigðiskerfið var að hruni komið, jafnvel fyrir hamfararnir. Talibanastjórnin hefur sætt viðskiptaþvingunum eftir að íslamska öfgahreyfingin hrifsaði völdin í landinu í fyrra og efnahagur landsins er nær að hruni kominn.
Meiri en þriðjungur Afgana er nú sagður skorta lífsnauðsynjar. Þá er lyfja- og lækningavaraskortur í landinu. Fáar björgunarþyrlur og flugvélar voru í landinu fyrir valdatöku talibana.
„Afganska þjóðin stóð þegar frammi fyrir fordæmalausri kreppu eftir áratugalöng átök, skæðan þurrk og efnahagsniðursveiflu. Jarðskjálftinn mun aðeins auka á það gríðarlega mannúðarástand sem hún þarf að líða daglega,“ segir Gordon Craig, næstráðandi matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í Afganistan.