Öryggismiðstöðin, sem sérhæfir sig í öryggislausnum og velferðartækni, hagnaðist um 529 milljónir króna í fyrra sem er tvöfalt meiri hagnaður en á árinu 2020.
„Rekstur ársins gekk vel og byggði um 30 prósenta tekjuaukning milli ára að hluta á verkefnum sem lagt var af stað með árið áður, þ.e. að sinna COVID sýntökum, bæði fyrir Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins í Orkuhúsinu, á Keflavíkurflugvelli sem og eigin skimunarstöðvum í BSÍ, Keflavík, Kringlunni og Hafnarfirði,“ segir í skýrslu stjórnar.
Öryggismiðstöðin gat fært til starfsmenn í flugtengdum verkefnum yfir í að sinna Covid-sýnatökum þannig komið í veg fyrir samdrátt í tekjum.
„Félagið gerir ráð fyrir að færa starfsfólk skimunarstöðvanna þegar skimunarverkefnum lýkur yfir í flugtengt verkefni og þannig koma í veg fyrir tekjufall,“ segir jafnframt í skýrslu stjórnar. Fjöldi ársverka var 342 á árinu 2021 og fjölgaði um 51 milli ára.
Fyrirtækið hlaut þekkingarverðlaun Félags viðskipta- og hagfræðinga í ár fyrir að hafa sýnt „einstaka aðlögunarhæfni á umbrotatímum.“ Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að þegar 120 störf á flugvellinum hurfu hefði Öryggismiðstöðin útvíkkað starfsemina til að halda öllum starfsmönnum áfram í vinnu.
„Þó að flestum verkefnum tengdum COVID sé lokið hefur myndast ný þekking innan fyrirtækisins tengd heilbrigðislausnum og þjónustu sem veitir fyrirtækinu frekari tækifæri til vaxtar á því sviði, segir í mati dómnefndar.“
Stærsti eigandi Öryggismiðstöðvarinnar er Unaós ehf. með 90 prósenta hlut. Helstu eigendur þess félags, hver með í kringum 30 prósenta hlut, eru Guðmundur Ásgeirsson, oft kenndur við Nesskip, hjónin Hjörleifur Þór Jakobsson og Hjördís Ásberg, og Auður Lilja Davíðsdóttir, markaðsstjóri fyrirtækisins.