Eins og allir ættu að vita þá tókust á fulltrúar risaveldanna á tímum kalda stríðsins, Bandaríkjamaðurinn Bobby Fischer og Sovéski heimsmeistarinn Boris Spassky á skákborðinu. Skákmennirnir háðu einstaka orrustu á Íslandi, sem um leið varð einn af hápunktum kalda stríðsins. Rússar höfðu haldið heimsmeistaratitlinum í skák samfleytt í 24 ár og varð Bobby Fischer fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vinna heimsmeistaratitilinn í skák frá upphafi keppninnar 1866.

Albert Cañagueral var ungur námsmaður að taka sín fyrstu skref í blaðamennsku þegar einvígið fór fram. Ævintýrin höfðu dregið hann alla leið á Hnífsdal að vinna í fiski og þar var hann þegar spænskir fjölmiðlar báðu hann um að vera þeirra augu og eyru á staðnum. Albert gerði það og meira til, og nú 50 árum síðar rifjar hann upp í sýningunni í Kötlusetri einvígið, en ekki síst upplifunina af því að vera viðstaddur þennan merka viðburð.

Við opnunina munu Guðmundur G. Þórarinsson, þáverandi formaður Skáksambands Íslands og framkvæmdarstjóri einvígisins, ávarpa gesti og Friðrik Ólafsson, fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák og eini íslenski skákmeistarinn sem hefur lagt að velli Bobby Fisher mun segja nokkur orð um upphaf skáklistarinnar. Ljúf tónlist verður í boði hæfileikaríkra tónlistarmanna á svæðinu og boðið verður upp á léttar veitingar.