Innherji

Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hækkar um níu prósent eftir kaupin á Vísi

Hörður Ægisson skrifar
Markaðsvirði Síldarvinnslunnar hefur hækkað um 15 milljarða í fyrstu viðskiptum í morgun.
Markaðsvirði Síldarvinnslunnar hefur hækkað um 15 milljarða í fyrstu viðskiptum í morgun. Vísir/Vilhelm

Fjárfestar hafa tekið vel í áform Síldarvinnslunnar um að kaupa allt hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi í Grindavík en gengi bréfa félagsins hefur hækkað um liðlega níu prósent í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í morgun.

Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar stendur nú í 105 krónum á hlut – velta með bréf félagsins hefur verið um 155 milljónir króna þegar þetta er skrifað – en markaðsvirðið útgerðarfyrirtækisins í Neskaupstað er því um þessar mundir 178,5 milljarðar króna og er orðið jafn hátt og í tilfelli Brims, hitt sjávarútvegsfyrirtækið sem er skráð í Kauphöllina. Það er hækkun upp á tæplega 15 milljarða miðað við gengi bréfa félagsins eftir lokun markaða fyrir helgi.

Síldarvinnslan tilkynnti um það í gærkvöld að félagið myndi kaupa allt hlutafé Vísis fyrir 20 milljarða króna. Að teknu tilliti til vaxtaberandi skulda Vísis, sem nema um 11 milljörðum, er heildarkaupverðið um 31 milljarður króna.

Greitt verður fyrir hlutinn með bréfum í Síldarvinnslunni, sem var skráð á hlutabréfamarkað fyrir rétt rúmu ári, og reiðufé. Þannig er greitt með reiðufé vegna 30 prósent kaupverðs og með hlutabréfum í Síldarvinnslunni vegna 70 prósent. Miðað er við meðaltalsgengi félagsins síðustu fjögurra vikna sem er 95,93 krónur á hlut.

Miðað við það mun Vísir eignast um 8,5 prósenta eignarhlut í Síldarvinnslunni sem gerir félagið að fimmta stærsta hluthafa útgerðarrisans á eftir Samherja, sem fer með þriðjungshlut, fjárfestingafélaginu Kjálkanes, Samvinnufélagi útgerðarmanna í Neskaupstað og Gildi lífeyrissjóði.

Kaupin á Vísir koma aðeins nokkrum vikum eftir að tilkynnt var um að Síldarvinnslan hefði fest kaup á rúmlega 34 prósenta hlut í norska laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish Holding AS fyrir um 15 milljarða króna. Þau kaup eru fjármögnuð með reiðufé og eins að hluta með öflun lánsfjár.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sagði í tilkynningu til Kauphallarinnar í gær að kaupandi og seljandi væru sammála um að með þessum viðskiptum sé verið að styrkja bæði félögin til framtíðar

„Starfsemin verður öflugri og tryggir samkeppnishæfni til lengri tíma litið. Höfuðstöðvar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar verða hjá Vísi í Grindavík, enda þar starfrækt hátæknivinnsla og mikil þekking og mannauður til staðar. Við sjáum fyrir okkur mikil tækifæri á vinnslu sjávarafurða í Grindavík, meðal annars vegna aukins fiskeldis á svæðinu á komandi árum. Ég tel að þessi viðskipti séu til mikilla hagsbóta fyrir alla aðila enda er sjávarútvegurinn alþjóðleg atvinnugrein sem þarf að standast harða samkeppni. Til lengri tíma litið ættu viðskiptin því að efla samkeppnisstöðu sjávarútvegs og þjónustu í Grindavík.“

Verði viðskiptin staðfest af hluthafafundi Síldarvinnslunnar og Samkeppniseftirlitinu er útlit fyrir að núverandi fiskveiðiheimildir Síldarvinnslunnar verði lítillega yfir gildandi viðmiðunarmörkum. Komi til þess hefur félagið sex mánuði til að laga sig að þessum viðmiðum, að því er sagði í tilkynningunni.

Síldarvinnslan, sem velti um 30 milljörðum í fyrra og hagnaðist um 11 milljarða, er í þriðja sæti yfir þær útgerðir sem ráða yfir mestum kvóta á Íslandi með um 9,4 prósenta hlutdeild í úthlutuðum aflaheimildum Sú hlutdeild tekur ekki tillit til hlutdeildar í deilustofnum sem eru fiskistofnar sem Ísland nýtir sameiginlega með öðrum löndum vegna þess að stofnarnir ganga milli lögsagna ríkjanna og sömuleiðis út á alþjóðlegt hafsvæði. Vísir, sem var með 10 milljarða árveltu í fyrra og skilaði 800 milljóna hagnaði, var hins vegar með um 2,16 prósent af úthlutuðum kvóta á síðasta fiskveiðiári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×