Enski boltinn

Bayern hefur áhuga á Kane en Tottenham telur hann ósnertanlegan

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane skorar úr vítaspyrnu gegn Bayern München í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu árið 2019.
Harry Kane skorar úr vítaspyrnu gegn Bayern München í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu árið 2019. Vísir/Getty

Þýska stórveldið Bayern München er sagt hafa áhuga á því að fá Harry Kane, stjörnuframherja Tottenham, í sínar raðir ef Robert Lewandowski yfirgefur þýsku meistarana.

Markamaskínan Robert Lewandowski hefur ekki farið leynt með það að hann vilji yfirgefa herbúðir Bayern, en leikmaðurinn er samningsbundinn félaginu út næsta tímabil. Lewandowski hefur sagst vilja fara til Barcelona.

Sjálfir hafa forsvarsmenn Bayern sagt að framherjinn sé ekki til sölu. Nú virðast þeir þó vera farnir að horfa í kringum sig ef ske kynni að Lewandowski yfirgefi félagið. Ef Pólverjinn fer ekki í sumar verður að teljast ansi líklegt að hann sé á útleið eftir næsta tímabil þegar samningur hans rennur út.

Ef marka má grein sem birtist á þýska vefmiðlinum Kicker.de í morgun hafa forráðamenn Bayern rennt hýru auga til enska framherjans Harry Kane. Ekki eru margir leikmenn í heiminum sem gætu fyllt í skarðið sem Lewandowski myndi skilja eftir sig, en Kane hefur verið einn allra besti framherji heims undanfarin ár og væri því vænlegur kostur fyrir þýska liðið.

Kane er þó langt frá því að vera fyrsti maður á lista yfir þá leikmenn sem Tottenham vill losna við og þá er þetta ekki í fyrsta skiptið sem evrópskt stórveldi reynir að kroppa í leikmanninn. Samningur hans við Lundúnaliðið rennur út árið 2024 og þjálfarar, stjórnendur og eigendur Tottenham telja hann ósnertanlegan. Þá er Tottenham einnig sagt vera að undirbúa viðræður um nýjan samning við leikmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×