Fótbolti

Liverpool býður börnum sem mættu á úrslitaleikinn í París frítt á völlinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsfólk Liverpool mátti þola ýmislegt áður en úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu hófst.
Stuðningsfólk Liverpool mátti þola ýmislegt áður en úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu hófst. Adam Davy/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélgaið Liverpool mun bjóða börnum, og forráðamönnum þeirra, sem mættu á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu að koma frítt á völlinn er liðið tekur á móti Strasbourg í vináttuleik á Anfield.

Eins og frægt er orðið varð rúmlega hálftíma töf á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem Liverpool laut í lægra haldi gegn Real Madrid. 

Upphaflega sagði UEFA að ástæðan fyrir töfinni væri sú að stuðningsmenn Liverpool hefðu ekki skilað sér á völlinn á réttum tíma. Síðar kom í ljós að stuðningsmenn liðsins voru fastir í löngum röðum og lögreglan í París endaði á því að beita táragasi á mannfjöldan. Joanne Anderson, borgarstjóri Liverpool-borgar, sagði síðar að franska lögreglan hafi „reynt að leita uppi vandræði.“

Nokkur fjöldi barna var á leiknum og eins og gefur að skilja gætu þessir atburðir í París haft slæm áhrif á það hvort þau treysti sér til að mæta aftur á völlinn. Knattspyrnufélagið sendi þeim sem áttu miða á leikinn bréf fyrr í vikunni með því markmiði að „styðja stuðningsmennina.“

Atburðirnir munu lengi lifa í minningunni af röngum ástæðum

„Við gerum okkur fulla grein fyrir því hversu erfið þessi lífsreynsla hefur verið fyrir þá stuðningsmenn sem mættu á leikinn,“ stóð í bréfinu.

„Þeir atburðir sem áttu sér stað á og í kringum Stade de France, fyrir og eftir upphafsflautið, munu lengi lifa í minningunni af röngum ástæðum.

Félagið veit vel af því að meðal þeirra sem mættu á völlinn voru börn sem áttu svo slæma upplifun að það mun hafa áhrif á löngun þeirra til að mæta á leiki í framtíðinni.

Við vitum að á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu var með þér barn (undir 16 ára aldri) og því viljum við bjóða barninu, í fylgd með einum fullorðnum, að mæta á vináttuleik Liverpool og Strasbourg, sunnudaginn 31. júlí, á Anfield.

Við vonum að með því að bjóða þér og barninu á Anfield muni það að einhverju leyti aðstoða ykkur í að finna sjálfstraust til að mæta á fótboltaleiki í framtíðinni, bæði heima og að heiman.

Sem félag erum við hér til að styðja stuðningsmennina,“ sagði að lokum í bréfinu.


Tengdar fréttir

UEFA biður Liverpool og Real Madrid afsökunar

Tæpri viku eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í París hefur knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, loks beðist afsökunar á þeirri óreiðu sem varð fyrir utan Stade de France leikvanginn.

Real Madrid stendur með Liverpool og krefst svara frá UEFA

Meistaradeildarmeistarar Real Madrid hafa farið fram á svör frá Evrópska knattspyrnusambandinu vegna „raða óheppilegra atburða“ þegar úrslit Meistaradeildarinnar milli liðsins og Liverpool fór fram í París síðasta laugardag.

UEFA fyrirskipar rannsókn vegna atburðanna í París

Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, tilkynnti í kvöld að sambandið myndi standa að sjálfstæðri og óháðri rannsókn á atburðum fyrir utan Stade de France-völlinn í París þegar Liverpool og Real Madríd áttust við úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á laugardagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×