Í tilkynningu á vef lögreglunnar segir að engin slys hafi orðið í umdæminu í maí en strax nokkrar mínútur yfir miðnætti 1. júní hafi fyrsta slys mánaðarins átt sér stað. Ökumaður var þá á leiðinni til Egilsstaða um Fagradal og missti stjórn á bifreið sinni. Hann rann yfir á öfugan vegarhelming og í veg fyrir bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Þrír slösuðust í árekstrinum en allir með minni háttar meiðsli.
Það var síðan daginn eftir sem bifreið keyrði út af Norðfjarðarvegi við Skorrastaði og valt. Tveir voru í bifreiðinni og leitaði farþegi læknisaðstoðar eftir en var ekki talinn vera alvarlega slasaður. Ökumaðurinn er talinn hafa dottað við aksturinn.
Sex dögum síðar, þann 8. júní, varð önnur bílvelta, nú á Axarvegi við Þrívörðuhálsa. Ökumaður var einn í bílnum en hann var fluttur á heilsugæslu á Djúpavogi. Áverkar hans voru taldir minni háttar. Hann missti útsýni úr bifreið sinni sökum ryks sem þyrlaðist upp frá bifreið á undan.
Þriðjudaginn 14. júní átti þriðja bílveltan sér stað er kind hljóp í veg fyrir bifreið á leið um Hróarstunguveg við Kirkjubæ á Héraði. Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og velti henni. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið í Neskaupstað talsvert lerkaður.
Daginn eftir féll eldri maður á reiðhjóli á Egilsstöðum og er talinn hafa fótbrotnað.
Sunnudaginn 19. júní var ökumaður á ferð á fjórhjóli á grófum malarslóða ofan Egilsstaða er hann missti stjórn á hjóli sínu og velti því eftir að hafa lent á grjóti. Hann fékk hjólið yfir sig og slasaðist nokkuð.
Tveimur dögum síðar varð fjórða bílvelta mánaðarins í umdæminu er flutningabifreið keyrði út af Upphéraðsvegi við Ormarstaðaá í Fljótsdalshreppi. Ökumaður slasaðist talsvert og var fluttur til aðhlynningar á Egilsstöðum.
Sama dag varð banaslys á Djúpavogi er erlendur ferðamaður lenti undir lyftara í Gleðivík. Málið er enn í rannsókn hjá lögreglu.