Innlent

Ríkið hefur greitt þremur bætur vegna bólu­setningar gegn Co­vid-19

Árni Sæberg skrifar
Þorri landsmanna hefur verið bólusettur gegn Covid-19.
Þorri landsmanna hefur verið bólusettur gegn Covid-19. Vísir/Vilhelm

Íslenska ríkið hefur greitt þremur skaðabætur vegna líkamstjóns af völdum bólusetningar gegn Covid-19. Tugir bótakrafna eru í vinnslu hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Ríkisútvarpið greindi frá því í gær að fjörutíu hafi sótt um bætur eftir bólusetningu og búið sé að afgreiða fimm umsóknir, þrír hafi fengið bætur og tveimur umsóknum hafi verið hafnað.

Rúv hefur eftir Ingibjörgu K. Þorsteinsdóttur, sviðstjóra réttindasviðs Sjúkratrygginga Íslands, að tíma taki að vinna úr umsóknum enda þurfi að rannsaka hvert mál fyrir sig og fylgjast með aukaverkunum,

Hún segir að SÍ hafi notið aðstoðar sérfræðinga á Landspítalanum við mat á líkum á því að líkamstjón fólks sé afleiðing bólusetningar og hvort það sé varanlegt.

Á vef Lyfjastofnunar segir að 293 tilkynningar hafi borist vegna gruns um alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu við Covid-19.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að nokkuð langt sé síðan tilkynningum um aukaverkanir af bóluefninu tók að fækka enda sé langt síðan fjöldabólusetningar kláruðust, í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×