Lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd eftir árásina vegna lélegra viðbragða. Lögreglumenn biðu meðal annars á göngum skólans í meira en klukkustund á meðan byssumaðurinn var enn að skjóta börn og starfsmenn skólans.
Í skýrslu, sem kom út í dag, frá nefnd skipaðri af meðlimum þingsins í Texas-ríki segir að Pete Arredondo, lögreglustjóri í Uvalde, hafi staðið sig afar illa á vettvangi. Hann hafi til dæmis sett aðgerðir lögreglu upp eins og skotmaðurinn væri ekki enn inni í skólanum, einungis vegna þess að hann sjálfur hafði ekki séð hann með berum augum.
Þá hafi verið fleiri mistök í aðgerðum hans og lögreglunnar, til dæmis þegar þeir fóru að leita að lykli að skólastofunum, án þess að athuga fyrst hvort þær væru læstar. Í skýrslunni segir að dýrmætum tíma hafi verið eytt í þetta.
Alls mættu 376 lögreglufulltrúar á vettvang en enginn þeirra stöðvaði byssumanninn fyrr en rúmum klukkutíma eftir að hann hóf skothríð sína.
Samkvæmt skýrslunni reyndu lögreglumenn að gera atlögu að skotmanninum en er hann skaut á þá hörfuðu þeir. Þeir reyndu ekki aftur að komast til hans fyrr en klukkutíma seinna og mátu því sem svo að þeirra öryggi væri mikilvægara en barnanna sem maðurinn var að skjóta á.