Erlent

Nema út­­varps­­merki sem líkjast hjart­slætti úr geimnum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ein af myndunum sem James Webb sjónaukinn náði af nálægri stjörnu í Carina-himinþokunni.
Ein af myndunum sem James Webb sjónaukinn náði af nálægri stjörnu í Carina-himinþokunni. AP/NASA

Stjörnufræðingar við MIT hafa numið endurtekin útvarpsmerki frá vetrarbraut sem er milljarða ljósára í burtu. Vísindamennirnir hafa ekki staðsett hvaðan merkin koma nákvæmlega en telja að þau komi mögulega frá nifteindastjörnum sem mynduðust úr föllnum risastjörnum.

Útvarpsbylgjurnar hafa borist með reglulegu millibili og enst í allt að þrjár sekúndur, segja vísindamennirnir. Flestar útvarpsbylgjur af þessu tagi, sem nefnast útvarpsblossar (e. fast radio burst), endast yfirleitt í aðeins nokkrar millisekúndur. Þessi merki endast því þúsund sinnum lengur en venjulega.

Í yfirlýsingu MIT segir að innan þessa þriggja sekúndna glugga hafi teymi þeirra numið útvarpsblossa sem endurtækjust á 0,2 sekúndna fresti í „skýru lotubundnu munstri, svipað og hjarta sem slær.“

Þann 21. desember 2019 námu vísindamenn við skoðunarstöð í Bresku-Kólumbíu í Kanada svipuð merki sem voru talin vera mögulegir útvarpsblossar. Daniele Michilli, vísindamaður við MIT, sem nam merkin þá sagði þau hafa verið óvenjuleg.

„Þau voru ekki bara mjög löng, entust í um þrjár sekúndur, heldur voru lotubundnir toppar sem voru merkilega nákvæmir. Þau gáfu frá sér merki á hverju sekúndubroti — búmm, búmm, búmm — eins og hjartsláttur,“ sagði Michilli og bætti við að nýjustu merkin væru þau fyrstu þar sem merkið sjálft væri lotubundið.

Upplýsingar um útvarpsblossa sem þessa, tíðni þeirra og fjarlægð þeirra frá Jörðinni gæti hjálpað vísindamönnum að meta það á hvað hraða alheimurinn þenst út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×