Inga Hrönn Jónsdóttir er einn af skipuleggjendum göngunnar. Hún segir hana tímabæra og tala beint inn í ástand samfélagsins í dag.
„Já, klárlega. Það er náttúrulega búin að vera þessi MeToo-bylgja núna í svoldið langan tíma. Og það er reiði í samfélaginu, það er hiti og fólk er tilbúið að berjast. Og það eru búin að vera mikil læti. Þannig að ég held svona að við séum allavega að hitta á mjög góðan tíma,“ segir Inga Hrönn.
Verður margmenni þarna í dag?
„Við erum að vona það allavega. Það náttúrulega var ekki ganga síðustu tvö ár og árið þar á undan var mætingin svona aðeins farin að dvína en við erum að vona að fólk sé spennt að mæta núna þegar það er búið að vera tveggja ára hlé,“ segir Inga Hrönn.
Í ár er gengið til að vekja athygli á valdaójafnvægi í samfélaginu.
„Við erum að reyna að sýna fram á hvað það birtist á mörgum mismunandi sviðum. Samfélagið hefur verið að sjá valdaójafnvægi undanfarið til dæmis með frægu strákana og fótboltamennina og allt þetta. En svo erum við að reyna að varpa ljósi á að þetta er á miklu fleiri stöðum. Það eru yfirmenn og það er valdaójafnvægi á milli einstaklings sem er fatlaður og einstaklings sem er ekki fatlaður. Við erum að reyna að sýna fram á að þetta er alls staðar í samfélaginu,“ segir Inga Hrönn.
Á Austurvelli halda þrjár konur ræður og síðan koma fram þrjú tónlistaratriði.