Innlent

Rann­sóknar­deild sam­göngu­slysa komin norður en enn ekki farin á vett­vang nauð­lendingarinnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frá Akureyrarflugvelli.
Frá Akureyrarflugvelli. Vísir/Tryggvi Páll

Tveir fulltrúar Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru komnir norður á Akureyri til að rannsaka nauðlendingu á Nýjabæjarfjalli í gær. Rannsóknarmennirnir eru enn ekki komnir á vettvang og segja of snemmt til að segja til um hvað hafi orðið til nauðlendingarinnar.

Þetta segir Ragnar Guðmundsson rannsakandi á flugsviði hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa í samtali við fréttastofu. Hann er staddur fyrir norðan ásamt öðrum rannsakanda og mun rannsaka aðdraganda og orsök slyssins ásamt lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Flugmaður og farþegi voru um borð í vélinni, sem Ragnar segir að hafi verið af gerðinni I.C.P. Savannah S, en sluppu þeir báðir ómeiddir að sögn varðstjóra hjá lögreglunni. 

Vélin hafi tekið á loft frá Akureyrarflugvelli um klukkan 18:40 í gærkvöldi en um sjö hafi farþegavél á leið til Akureyrar numið neyðarkall frá vélinni. Starfsmaður flugturns á Akureyrarflugvelli hafi í kjölfarið kallað út aðstoð. 

Sjá einnig: Flug­vél nauð­lenti í Tungudal

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var í kjölfarið kölluð út, þar sem erfitt er að komast að lendingarstaðnum en um átta kíllómetrar voru að næsta vegslóða. 

Að sögn varðstjóra hjá Landhelgisgæslunni barst henni hjálparbeiðni um sjö en tveimur mínútum síðar hafi verið staðfest að flugmanninum hafi tekist að lenda vélinni án stórkostlegra vandræða. 

Viðbragð við slysinu hafi þó verið farið af stað, eins og vani sé, og þyrla Landhelgisgæslunnar látin sækja mennina sem voru í vélinni og koma með þá til byggða. Að sögn varðstjórans tókst flugmanninum að lenda vélinni tiltölulega vel miðað við aðstæður og betur hafi farið en á horfðist. Lendingarstaðurinn hafi verð malarvöllur, sem auðvitað sé ekki hannaður fyrir flugvélar, og því væntanlega einhverjar skemmdir á hjólabúnaði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×