Umfjöllun og viðtöl: ÍA 0-4 Fram | Nýliðarnir höfðu betur gegn botnliðinu

Sindri Már Fannarsson skrifar
Nýliðar Fram nálgast efri hluta deildarinnar með sigri í kvöld.
Nýliðar Fram nálgast efri hluta deildarinnar með sigri í kvöld. Vísir/Diego

ÍA, botnlið Bestu-deildar karla í knattspyrnu, tóku á móti nýliðum deildarinnar, Fram, á Akranesi í 14. umferð deildarinnar. Nýliðarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu stórsigur á Skipaskaga, 0-4. Magnús Þórðarson, Már Ægisson, Alex Freyr Elísson og Guðmundur Magnússon skoruðu mörkin.

Leikurinn fór sterkt af stað og spiluðu bæði lið af miklum krafti. Það var hart barist um hvern lausan bolta og menn voru duglegir að láta finna fyrir sér. Eitthvað var um brot en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari geymdi flautuna mest ofan í vasa. Fyrstu tuttugu mínúturnar eða svo var leikurinn nokkuð jafn og liðin skiptust á færum. 

Á 19. mínútu fékk Albert Hafsteinsson boltann við vinstri hornfána Skagamanna tók á manninn sinn en gaf svo á Magnús Þórðarson. Magnús gerði gabbhreyfingu og skaut svo á milli varnarmanna ÍA og í netið. Einungis tveimur mínútum síðar var Albert Hafsteinsson aftur í svipaðri stöðu vinstra megin á vellinum en gaf í þetta skiptið á Má Ægisson. Már lét vaða í átt að marki, það sem leit út fyrir að eiga að vera fyrirgjöf en framhjá öllum í teignum, boltinn tók eitt skopp og endaði í markinu. Það sem eftir lifði hálfleiks var þetta hálfgerð einstefna í átt að marki ÍA.

Framarar byrjuðu seinni hálfleikinn með frábæru marki. Alex Freyr Elísson hljóp með boltann inn á teiginn, lék á tvo varnarmenn ÍA og potar boltanum framhjá þeim þriðja og í markið. Þvílíkt flottir taktar og hans fyrsta mark í efstu deild. Á 63. mínútu var svo komið að Guðmundi Magnússyni sem skoraði skallamark eftir flotta fyrirgjöf frá Magnúsi Þórðarsyni. Guðmundur er nú jafnmarkahæstur í Bestu deildinni, með 11 mörk í 14 umferðum, jafn Ísaki Snæ Þorvaldssyni leikmanns Breiðabliks. Eftir fjórða markið hægðist á leiknum, Framarar einbeittu sér að því að halda boltanum innan liðsins frekar en að sækja og Skagamenn áttu einhver færi en engin svo hættuleg. Verðskuldaður fjögurra marka sigur Fram staðreynd.

Af hverju vann Fram?

Leikurinn var nú nokkuð jafn fyrstu 20 mínúturnar eða svo en eftir þessi tvö fyrstu mörk Framara komst ÍA aldrei almennilega inn í leikinn aftur.

Hverjir stóðu upp úr?

Framliðið átti frábæran leik í öllum stöðum vallarins. Mark- og miðverðir sáu um sitt á meðan bakverðir, miðju- og sóknarmenn yfirspiluðu ÍA. Magnús Þórðarson stóð sérstaklega upp úr en hann skoraði fyrsta markið og lagði upp það fjórða.

Hvað gekk illa?

Skagamenn misstu öll tök á leiknum eftir að lenda tveimur mörkum undir. Þeir voru inni í leiknum fyrst um sinn en eftir mörkin tvö sáu þeir ekki til sólar. Sóknarleikurinn var sérstaklega dapur því þeim tókst nánast ekki að skapa sér alvöru færi á meðan þeir áttu séns á að koma til baka.

Hvað gerist næst?

ÍA er á botni deildarinnar með 8 stig en Fram í því áttunda með 17. ÍA á erfitt prógram framundan en næstu leikir eru gegn Breiðablik, Val og KA. Næsti leikur Fram er á miðvikudaginn í næstu viku en þá fá þeir Stjörnuna í heimsókn í Úlfarsárdal.

„Náðum aldrei að koma til baka“

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.Vísir/Vilhelm

„Mér fannst við byrja leikinn vel, við fáum fínan takt í leikinn okkar til að byrja með og við vorum að skapa okkur stöður og skapa okkur færi. Við fáum fyrstu færin í leiknum fannst mér en við náum ekki að nýta það og fáum tvö mörk á okkur með stuttu millibili og það bara sló okkur út af laginu og við náðum aldrei að koma til baka eftir það“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, í viðtali við Vísi eftir leik.

Jón Þór var ánægður með baráttuanda sinna manna. „Menn voru að reyna að koma sér inn í leikinn. Auðvitað er staða okkar bara þannig að það er langt síðan liðið vann leik. Það þýðir það að þegar þú lendir undir með þessum hætti, eins og ég segi, tvö mörk með stuttu millibili, það slær okkur út af laginu þannig að liðið slitnar svolítið í kjölfarið og við erum svolítið staðir í stöðunum okkar og við vorum ekki að fá þessar góðu færslur sem við byrjuðum með og sýndum í upphafi leiks. En ekkert út á það að setja, menn lögðu sig fram og voru að reyna að koma sér aftur inn í leikinn en það gekk ekki,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.

„Ekkert sjálfgefið að koma hingað og henda í fjögur“

Alex Freyr Elísson, leikmaður Fram.Fram

„Bara, geggjað, bara, það er ekkert sjálfgefið að koma hingað og henda í fjögur og halda hreinu. Þannig að ég er bara hrikalega ánægður“ sagði Alex Freyr Elísson, leikmaður Fram, í samtali við Vísi eftir leikinn.

Alex Freyr skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild og ekki var það af verri endanum. „Bara geggjað sko, maður er búinn að vera að bíða eftir fyrsta markinu og það er ekki leiðinlegt þegar það lítur svona vel út. Þannig að ég er ánægður bara.“

„Ég myndi segja að ég sé með þokkalegt skotleyfi, ég hef þurft að bæta varnarleikinn og ég er búinn að vera að vinna í honum í sumar. Þannig að ég er ekkert búinn að vera jafn agressífur og í Lengjudeildinni (í fyrra) en þetta er að koma“, sagði Alex Freyr Elísson, leikmaður Fram.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira