Fótbolti

Mourinho reynir að bæta enn frekar við hópinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bæði Bailly og Wijnaldum eru sagðir vilja ganga í raðir Roma.
Bæði Bailly og Wijnaldum eru sagðir vilja ganga í raðir Roma. Clive Brunskill/Getty Images

José Mourinho, þjálfari Roma á Ítalíu, er hvergi nærri hættur á leikmannamarkaðnum. Hann reynir nú að fá fyrrum lærisvein sinn og fyrrum andstæðing.

Roma hefur fest kaup á fjórum leikmönnum það sem af er sumri. Paulo Dybala, sem kom frítt frá Juventus, stendur þar upp úr en þá var Tyrkinn Zeki Celik keyptur frá Lille og Serbinn Mile Svilar var fenginn inn sem varamarkvörður.

Landi hans Nemanja Matic kom einnig frá Manchester United, en Mourinho var að kaupa hann í þriðja skipti á ferlinum. Fyrrum liðsfélagi Matic er næstur á óskalista Mourinho.

Miðverðinum Eric Bailly hefur gengið misvel að fóta sig í treyju Manchester United en hann var fyrsti leikmaðurinn sem Mourinho keypti til liðsins þegar hann tók við því árið 2016. Mourinho vill endurnýja kynnin við Bailly og fá hann til Rómarborgar.

Bailly er sagður opinn fyrir skiptunum en búast má við að hann falli aftar í goggunarröðina þegar United gengur frá kaupunum á Lisandro Martínez frá Ajax. Hann lék aðeins sjö keppnisleiki fyrir liðið á síðustu leiktíð.

Þá er Hollendingurinn Georginio Wijnaldum sagður vera á leið til Roma á láni frá Paris Saint-Germain. Samkvæmt frönskum fréttamiðlum er hann ekki í áformum Christophe Galtier, sem tók nýverið við stjórnartaumunum í frönsku höfuðborginni.

Wijnaldum yfirgaf Liverpool fyrir ári síðan til að semja við frönsku meistarana en gekk illa að festa sig í sessi á nýliðinni leiktíð. Rómverjar vonast eftir því að þurfa ekki að borga allan launakostnað Hollendingsins, en þær viðræður gætu tafið skiptin. Wijnaldum er sagður spenntur fyrir því að yfirgefa PSG.

Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×