Fótbolti

Sjáðu magnaðar móttökur Dybala í Róm sem meira en tólf milljónir hafa horft á

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paulo Dybala reynir að fanga mómentið með símanum sínum fyrir framan alla þessa stuðningsmenn Roma.
Paulo Dybala reynir að fanga mómentið með símanum sínum fyrir framan alla þessa stuðningsmenn Roma. Getty/ Fabio Rossi

Ítalska félagið Roma fékk góðan liðstyrk á dögunum þegar argentínski framherjinn Paulo Dybala samdi við félagið. Það er óhætt að segja að það sé spenna meðal stuðningsmanna félagsins yfir nýja leikmanninum.

Yfir tíu þúsund stuðningsmenn Rómarliðsins mættu á Palazzo della Civiltà torgið í Róm til að bjóða Dybala velkominn í félagið.

Hér fyrir neðan má sjá stuðningsmennina syngja til Dybala sem veit ekki alveg hvernig hann á að haga sér einn á sviðnu.

Dybala kom til Roma á frjálsri sölu eftir að samningur hans við Juventus rann út.

Þessar mögnuðu móttökur vöktu líka mikla athygli á netmiðlum og yfir tólf milljónir manna horfðu á myndband af þeim á Twitter á fyrstu tíu klukkutímunum.

Hinn 28 ára gamli Dybala hafði spilað með Juve frá árinu 2015 en þar áður var hann hjá Palermo. Hann hefur spilað á Ítalíu frá því að hann var nítján ára gamall.

Dybala skoraði 10 mörk í 29 deildarleikjum á síðustu leiktíð en var alls með 82 mörk í 210 leikjum fyrir Juventus í Seríu A.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×