Íslenski boltinn

„Skilst að þetta sé helvíti þægilegt brot“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason í leiknum fjöruga gegn Val.
Pálmi Rafn Pálmason í leiknum fjöruga gegn Val. vísir/hulda margrét

Pálmi Rafn Pálmason, fyrirliði KR, tábrotnaði í 3-3 jafnteflinu gegn Val í Bestu deildinni. Þrátt fyrir það vonast hann til að ná næsta leik liðsins.

Pálmi kom inn á sem varamaður í hálfleik í leiknum á Meistaravöllum á mánudaginn. Hann varð fyrir því óláni að tábrotna en kláraði samt leikinn.

„Ég lenti í tæklingu og það flísaðist aðeins úr tánni,“ sagði Pálmi í samtali við Vísi í dag. Hann ber sig vel þrátt fyrir brotið og segir það minni háttar.

„Mér skilst að þetta sé helvíti þægilegt brot. Ef ég ræð við verkina á ég ekki að eyðileggja neitt. Ég verð aðeins að bíða og sjá. En ég vona að ég verði nógu sterkur til að hlaupa mig í gegnum þetta.“

Næsti leikur KR er gegn KA á Akureyri á þriðjudaginn. Pálmi segir alls ekki útilokað að hann spili þann leik.

„Ég vona að það verði möguleiki. En þetta er það nýlegt að ég get ekki alveg svarað fyrir það. Ég bind vonir við það en það kemur í ljós,“ sagði Pálmi sem hefur leikið þrettán af fjórtán leikjum KR í Bestu deildinni í sumar.

KR, sem er án sigurs í síðustu sex leikjum, er í 6. sæti Bestu deildarinnar með átján stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×