Erlent

Tvær ágengar ­tegundir valdi lang­mestum skaða í heiminum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ameríski bolafroskurinn getur orðið þrjátíu sentimetra langur og hálft kíló að þyngd. Hann er þekktur fyrir að borða nánast hvað sem er.
Ameríski bolafroskurinn getur orðið þrjátíu sentimetra langur og hálft kíló að þyngd. Hann er þekktur fyrir að borða nánast hvað sem er. Getty/Chris McGrath

Amerískur bolafroskur og brúnn trjásnákur hafa kostað heiminn alls 16 milljarða Bandaríkjadala, tvö þúsund milljarði íslenskra króna, með því að skemma uppskerur, rafmagnssnúrur og fleira. Engin ágeng tegund er jafn skaðleg fyrir heiminn og þessar tvær.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar fjölda vísindamanna sem birt var í tímaritinu Nature í gær. Skemmdirnar sem voru metnar ná allt til ársins 1986.

Brúnn trjásnákur.Getty

Brúnn trjásnákur á það til að valda miklum rafmagnstruflunum með því að skríða eftir rafmagnsleiðslum. Bandaríski herinn kom óvart með snákinn á eyjuna Gvam og þar hefur hann valdið miklum skaða og hefur náð að dreifa sér á fleiri eyjar í Kyrrahafinu. Snákurinn hefur ansi oft slegið rafmagnið út hjá hernum. 

Yfir tvær milljónir brúnna trjásnáka eru taldir búa á eyjunni en hún er 549 ferkílómetrar að stærð, svipað stór og Borgundarhólmur í Eystrasaltinu.

Amerískum bolafroskum hefur fjölgað gífurlega í Evrópu síðustu ár en froskarnir eru sagðir borða nánast hvað sem er. Þannig valda þeir miklum skemmdum í vistkerfi landa.

Í Þýskalandi hafa verið settar upp girðingar við nokkrar tjarnir svo froskarnir komist ekki úr þeim og dreifi sér um nærliggjandi svæði.

Í skýrslunni er einnig rætt um aðra froskategund, coqui-froskinn sem talinn er hafa keyrt niður fasteignaverð í hverfum sem hann sest að í vegna háværs pörunarkalls.

Lítill Coqui-froskur sem veit líklegast ekki að hann er aðeins of hávær þegar hann leitar sér að maka.Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×