Fótbolti

Fabregas mættur í ítölsku B-deildina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cesc Fabregas er mættur í ítölsku B-deildina.
Cesc Fabregas er mættur í ítölsku B-deildina. Emilio Andreoli/Getty Images

Spænski knattspyrnumaðurinn Cesc Fabregas hefur skrifað undir tveggja ára samning við ítalska B-deildarliðið Como 1907.

Þessi 35 ára leikmaður gengur til liðs við Como á frjálsri sölu eftir að samningur hans við Monaco rann út í júní. Fabregas gekk í raðir Monaco frá Chelsea árið 2019, en það var fyrrum samherji hans hjá Arsenal, Thierry Henry, sem fékk hann til Monaco þegar hann þjálfaði liðið.

Fabregas hefur á löngum ferli sínum unnið nánast alla þá titla sem í boði eru. Hann hefur leikið með Arsenal, Chelsea, Barcelona og spænska landsliðinu og orðið Evrópumeistari í tvígang og heimsmeistari einu sinni svo eitthvað sé nefnt.

Dennis Wise, fyrrum leikmaður Chesea og enska landsliðsins og núverandi stjórnarformaður Como, segir að koma Fabregas til félagsins sé gríðarlega mikilvæg í metnaðarfullum áætlunum liðsins.

„Þetta er leikmaður sem hefur gert svo margt fyrir knattspyrnusöguna og nú verður hann hluti af metnaðarfullum áætlunum Como 1907,“ sagði Wise við komu Fabregas til liðsins.

„Leikmaður í þessum gæðaflokki og með þetta mikla reynslu er gríðarlega mikilvægur fyrir þriggja ára áætlun okkar um að koma liðinu upp í Serie A.“

Como hafnaði í 13. sæti Serie B á seinasta tímabili þar sem liðið fékk 47 stig í 38 leikjum. Liðið á því enn ansi langt í land til að fara að berjast um sæti í deild þeirra bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×